Auglýsing og frétt Þórs vegna yfirtöku á KRONE umboðinu
Vélaborg ehf. leitaði til Neytendastofu vegna auglýsingar Þórs hf. sem birtist í Bændablaðinu og fréttar sem birtist á heimasíðu Þórs vegna yfirtöku á KRONE umboðinu á Íslandi. Taldi Vélaborg m.a. að auglýsing og frétt Þórs hafi verið villandi, röng og kasti rýrð á þjónustu og starfsemi Vélaborgar.
Að mati Neytendastofu voru fullyrðingar þess efnis að Þór væri nú umboðsaðili KRONE ekki rangar og því ekki brot. Hins vegar taldi Neytendastofa að auglýsing og frétt Þórs hafi verið ósanngjarnar gagnvart Vélaborg þar sem gefið var í skyn að fyrri umboðsaðili KRONE hafi ekki verið traust fyrirtæki. Neytendastofa bannaði því Þór frekari birtingu auglýsingar og fréttar.
Lesa má ákvörðun Neytendastofu nr. 71/2011 í heild sinni hér