Athugun á verðmerkingum í Borganesi
Þann 8. september sl. gerði Neytendastofa athugun á ástandi verðmerkinga verslana í Borganesi. Farið var í 21 verslun, sérverslanir, bakarí, hárgreiðslu- og snyrtistofur, bensínafgreiðslustöðvar og matvöruverslanir.
Niðurstöður athugunarinnar í Borganesi eru eftirfarandi:
Í sérvöruverslunum voru verðmerkingar í góðu lagi á átta stöðum af tíu. Gerðar voru athugasemdir hjá Kaupfélagi Borgfirðinga varðandi verðmerkingar í verslun og versluninni Kristý varðandi verðmerkingar í verslun og sýningarglugga. Þess ber að geta að í könnun sem gerð var á vegum Neytendastofu í desember 2008 þá voru engar athugasemdir gerðar við verðmerkingar í sérvöruverslunum í Borganesi.
Heimsótt var eina bakaríið í Borganesi, Geirabakarí, og var ástand verðmerkinga í kæli gott en í borði var ástandið viðunandi.
Á hárgreiðslustofunni SOLO var verðskrá yfir þjónustu ekki sýnileg viðskiptavinum og söluvörur í hillu voru óverðmerktar. Á snyrtistofu Jennýar var verðskráin sýnileg en söluvörur í hillum voru óverðmerktar.
Af bensínafgreiðslustöðvum þá var Olís Brúartorgi sú eina sem var með verðmerkingar í kæli í góðu lagi af þeim þremur sem voru í úrtakinu. Hjá Skeljungi og N1 var ástand verðmerkinga í kæli ábótavant, sem eru sömu niðurstöður og könnun frá því í desember 2008 leiddi í ljós. Því ljóst að lítil breyting til batnaðar hefur í orðið í þessum málum hjá Skeljungi og N1 í millitíðinni. Gerð var sérstök könnun á samræmi milli hillu og kassaverðs, þar sem valdar voru átta vörur af handahófi. Ekki reyndist unnt að gera athugun hjá Olís vegna bilunar í kerfi. Hjá Skeljungi voru gerðar athugasemdir við sex vörur af átta og hjá N1 voru gerðar athugasemdir við fjórar vörur af átta.
Þá var farið í Samkaup/Úrval og Bónus. Af þeim 100 vörum sem voru skoðaðar voru verðmerkingar í lagi í 80% tilfella. Í verslun Samkaupa/Úrvals voru gerðar tíu athugasemdir og hjá Bónus voru gerðar 11 athugasemdir. Engin athugasemd var gerð við verðmerkingar í grænmetiskælum verslananna.
Aðilum sem Neytendastofa telur ástæðu til þess að gera athugasemdir við vegna verðmerkinga hefur verið sent bréf frá stofnuninni og gefinn kostur á að koma verðmerkingum í viðunandi horf. Könnuninni verður fylgt eftir og ef þurfa þykir teknar ákvarðanir um viðurlög vegna slæms ástands verðmerkinga.
Neytendastofa mun halda áfram verðmerkinga- og verðkannanaeftirliti sínu og gera athugun hjá fleiri verslunum. Neytendur geta sent Neytendastofu ábendingar vegna rangra eða ófullnægjandi verðmerkinga undir nafni með skráningu notenda eða sem nafnlausa ábendingu sjá nánri upplýsingar og leiðbeiningar á heimasíðu Neytendastofu.