Verðmerkingar almennt góðar á pósthúsum höfuðborgarsvæðisins
30.07.2010
Neytendastofa hefur gert könnun á ástandi verðmerkinga á 11 pósthúsum á höfuðborgarsvæðinu. Kannað var hvort verðlisti yfir helstu þjónustuliði væri til staðar og hvort söluvara væri verðmerkt.
Í ljós kom að átta pósthús eða 73% voru með verðskrá sem auðvelt var að átta sig á og aðgengileg viðskiptamönnum en þrjú pósthús voru ekki með verðskrá til sýnis.
Í öllum 11 pósthúsunum voru verðmerkingar á söluvörum í lagi.
Neytendastofa hvetur neytendur til að vera ávallt á verði og koma ábendingum til stofnunarinnar með rafrænum hætti í gegnum rafræna Neytendastofu á slóðinni www.rafraen.neytendastofa.is