Matvöruverslanir illa verðmerktar á Suðurnesjum
Dagana 25. júlí – 2. ágúst kannaði Neytendastofa verðmerkingar í 10 matvöruverslunum á Suðurnesjum. Fólst könnunin í því að skoða hvort verðmerking væri til staðar, hvort einingarverð væri tilgreint á verðmerkingum auk þess að athuga hvort misræmi væri á milli hilluverðs og kassaverðs.
Er skemmst frá því að segja að einungis ein verslun, Bónus í Reykjanesbæ, var með verðmerkingarnar í lagi. Flestar athugasemdirnar komu fram í Kaskó í Reykjanesbæ eða í 30% tilfella. Hvergi voru fleiri vörur óverðmerktar, eða 18%, en hjá Samkaup strax í Garði og í Sandgerði.
Í heildina kannaði Neytendastofa rétt tæplega 400 vörur og reyndust 350 þeirra verðmerktar. Af þeim 350 verðmerktu vörum vantaði einingarverð á 50 vörur. Er þetta nokkuð verri niðurstaða en fékkst í könnun Neytendastofu frá júní sl. sem tók til matvöruverslana á höfuðborgarsvæðinu.
Misræmi var á milli hillu- og kassaverðs á alls 32 vörum en þar af voru 19 vörur dýrari á kassa en verðmerking í hillu sagði til um. Engin verslun komst klakklaust í gegnum þennan hluta könnunarinnar þar sem allar verslanir reyndust hafa eitthvert misræmi milli hillu- og kassaverðs. Oftast var misræmi milli hillu- og kassaverðs í Kaskó í Reykjanesbæ eða í 14% tilfella. Fólst misræmið alltaf nema einu sinni í því að viðkomandi vara var dýrari á kassa en uppgefið verð í hillu sagði til um. Er því nauðsynlegt fyrir neytendur að hafa augun hjá sér að þessu leyti við innkaup í matvöruverslunum.
Í kjölfar könnunarinnar sendi Neytendastofa bréf á viðkomandi matvöruverslanir þar sem greint var frá ástandi verðmerkinga í hverri og einni verslun. Með eftirlitinu vonast Neytendastofa til þess að ástandi verðmerkinga verði komið í betra horf. Ábendingum vegna ófullnægjandi verðmerkinga má koma til Neytendastofu í gegnum rafræna Neytendastofa á vefslóðinni www.rafraen.neytendastofa.is.