Fara yfir á efnisvæði

Þyngdarkönnun á forpökkuðu skyri

25.10.2011

Neytendastofa gerði könnun á þyngd á skyri í kjölfar ábendinga frá neytendum. Kannað var hvort raunveruleg þyngd væri í samræmi við upplýsingar á umbúðunum. Sýni voru tekin af KEA Skyri með bláberjum og jarðarberjum sem er merkt 200 g að þyngd og af MS skyr.is með bláberjum sem er merkt 170 g. 

Niðurstaðan leiddi í ljós að öll sýni af Skyr.is reyndust vera í lagi.  Öll sýni af KEA bláberja- og jarðarberjaskyri í 200 g forpakkningum reyndist léttari en sú þyngd sem tilgreind er á umbúðum og féll sú lota. 

Athygli vekur að mismunur á hæstu og lægstu frávikum er ekki mikill og dreifing því fremur jöfn á þeim sýnum sem tekin voru til skoðunar á báðum vörutegundunum.

Neytendastofa telur að athuganir hennar að undanförnu á forpökkuðum vörum sýni að mikilvægt sé  að auka aðhald að markaðnum.  Stofnunin mun halda áfram að taka við ábendingum og gera úrtaksskoðanir á ýmsum sviðum vöruviðskipta.

Mikilvægt er að  tryggja að neytendur fái ávallt afhentar forpakkaðar vörur sem uppfylla kröfur um þyngd.  Neytendastofa vill því hvetja framleiðendur til að virða gildandi reglur um magntilgreiningu á umbúðum og tryggja að magn vöru sem afhent er sé ávallt í réttu samræmi við þyngdarmerkingar á umbúðunum.

TIL BAKA