Fara yfir á efnisvæði

Verðmerkingum enn ábótavant hjá sjö apótekum

27.05.2010

Dagana 12. apríl – 25. maí síðastliðinn fór starfsmaður Neytendastofu í eftirlitsferð í 22 apótek á höfuðborgarsvæðinu til að fylgja eftir fyrri eftirlitsferð sem farin var í mars, en þá fengu þessi apótek áminningu vegna ófullnægjandi verðmerkinga. Skoðað var hvort verðmerkingar í verslun og við afgreiðsluborð væru í lagi, ásamt því að borið var saman verð á hillu og afgreiðslukassa á 5 vörum völdum af handahófi.

Meirihluti apótekanna hafði tekið vel í ábendingar um að bæta verðmerkingar. Af 22 apótekum voru 15 með verðmerkingar í lagi en sjö höfðu ekki brugðist nógu hratt við og var verðmerkingum þar ábótavant. Voru það Árbæjarapótek Hraunbæ 115, Laugarnesapótek Kirkjuteigi 21, Lyf og heilsa í Glæsibæ og Fjarðarkaupum, Lyfjaval í Mjódd og Álftamýri 1 og Reykjavíkurapótek Seljavegi 2. Það sem vakti helst athygli var að af þessum sjö voru sex apótek enn með verðmerkingar í og á bak við afgreiðsluborð í ólestri og þar af voru þrjú apótek, bæði Lyfjaval í Mjódd og Álftamýri og Reykjavíkurapótek, enn með lausasölulyf óverðmerkt.

Samræmi á verði í hillu og á afgreiðslukassa var gott, í fjórum tilvikum var verð hærra á kassa en í hillu og tvisvar var verð lægra á kassa en í hillu.

Eiga þau 15 apótek sem lagað höfðu verðmerkingar hrós skilið en ljóst er að eftirlit er nauðsynlegt til að halda verslunareigendum við efnið og því miður verður að sekta í sumum tilfellum til að þeir átti sig á alvöru málsins. Því halda starfsmenn Neytendastofu áfram að gæta réttar neytenda og fá einnig góða hjálp frá neytendum í formi ábendinga, bæði í síma og í gegnum rafræna neytendastofu.

TIL BAKA