Fara yfir á efnisvæði

Vodafone sektað um 2,6 milljónir

23.08.2010

Fréttamynd

Síminn kvartaði til Neytendastofu yfir auglýsingum Vodafone með yfirskriftinni „Reiknaðu með raunverulegum reikningum“. Í auglýsingunum var borið saman verð fyrir þjónustu Símans annars vegar og Vodafone hins vegar í þeim tilgangi að sýna fram á að þjónusta Vodafone væri ódýrari en Símans og neytendur gætu því sparað sér háar fjárhæðir með því að flytja viðskipti sín til Vodafone.

Neytendastofa hefur komist að þeirri niðurstöðu að auglýsingarnar brjóti með margvíslegum hætti gegn lögum um eftirlit með viðskiptaháttum og markaðssetningu.

Í fyrsta lagi er í auglýsingunum borin saman heildarfjárhæð símreikninga sem Neytendastofa hefur þegar tekið ákvörðun um að sé villandi af því notkun og aðrir þættir sem mynda heildarfjárhæðina eru breytilegir milli mánaða og einstaklinga.

Í öðru lagi var verð Vodafone í auglýsingunni háð því að viðskiptavinurinn væri skráður í þjónustuleiðina Vodafone Gull. Það skilyrði kom hins vegar ekki fram í auglýsingunni.

Í þriðja lagi var borin saman þjónusta Vodafone, þar sem viðskiptavinir eru skráðir í Vodafone Gull og njóta þar ýmissa afslátta gegn því skilyrði að vera með farsíma, heimasíma og Internet hjá Vodafone, við þjónustu Símans þar sem engin slík skilyrði eru.

Í fjórða lagi voru reikningarnir, sem bornir voru saman, frá mismunandi tímabilum og ekki sýnt fram á að þau verð fyrir þá þjónustu sem þar er greitt fyrir væri enn í gildi.

Í fimmta lagi var ekki greint frá því hvort þjónusta Vodafone og Símans sé sambærileg eða hver munurinn á þjónustu aðilanna er.

Í sjötta lagi var notkun, þ.e. fjöldi og lengd símtala, mis mikil á reikningum frá hvorum aðila.
Vegna alls þessa taldi Neytendastofa auglýsingarnar villandi gagnvart neytendum og skorta upplýsingar sem máli skipta. Stofnunin taldi samanburðinn sem fram kom í auglýsingunum villandi og þá þjónustu sem verið væri að bera saman ekki samanburðarhæfa. Auglýsingin var einnig talin ósanngjörn gagnvart Símanum.

Þá var í auglýsingunni fullyrt að með Ofurheimasíma sé ekki greitt fyrir símtöl í farsíma eða heimasíma innanlands og erlendis. Sú notkun er hins vegar háð skilyrðum og var Vodafone bannað að birta framangreinda fullyrðingu án þess að skilyrðin kæmu fram með ákvörðun Neytendastofu nr. 7/2010.
Þar sem Vodafone braut gegn ákvörðun nr. 7/2010 með birtingu auglýsinganna lagði Neytendastofa stjórnvaldssekt á fyrirtækið að fjárhæð 2,6 milljónum.

Ákvörðunina má lesa í heild sinni hér.

 

TIL BAKA