Fara yfir á efnisvæði

Kynningarbæklingur um neytendalán

31.10.2013

Fréttamynd

Neytendastofa hefur eftirlit með nýjum lögum um neytendalán þar sem réttindi neytenda eru bætt og meiri skyldur lagðar á lánveitendur en áður hefur verið gert.

Fyrst má nefna að gildissvið laganna hefur verið útvíkkað. Eldri lögin tóku t.d. ekki til smálána eða lána sem voru veitt til styttri tíma en þriggja mánaða en í nýju lögunum hafa fjárhæðar og tímamörk verið afnumin.

Í öðru lagi eru ítarlegri kröfur gerðar um upplýsingar til neytenda í auglýsingum og áður en samningur er gerður.

Í þriðja lagi er með nýju lögunum sett hámark á árlega hlutfallstölu kostnaðar – ÁHK og má hún að hámarki vera 50% að viðbættum stýrivöxtum. ÁHK er allur kostnaður sem neytandi þarf að greiða vegna lánsins, reiknaður á ársgrundvelli og settur fram í einni prósentutölu.

Í fjórða lagi er neytendum nú veittur réttur til að hætta við lántöku og falla frá samningi í 14 daga. Lánveitandi má ekki krefjast uppgreiðslugjalds á þessu tímabili en neytandinn þarf að greiða áfallna vexti og verðbætur.

Frekari upplýsingar um nýju lögin, réttindi og skyldur neytenda er að finna hér í nýjum kynningarbæklingi Neytendastofu.

Bæklingnum er dreift hjá Neytendastofu og í útibúum fjármálafyrirtækja.

TIL BAKA