Ástand verðmerkinga á Suðurnesjum.
Neytendastofa hefur gert könnun á ástandi verðmerkinga í matvöruverslunum, bakaríum, fiskbúðum og sérvöruverslunum á Suðurnesjunum. Könnunin var gerð í desember.
Farið var í átta matvöruverslanir og valdar 25 vörur af handahófi í hverri verslun. Kannað var hvort þær væru verðmerktar og hvort verðmerking í hillu væri í samræmi við verð á kassa. Alls voru skoðaðar 200 vörur og voru verðmerkingar í ólagi í 20,5 % tilvika. 5% af vörunum eða 10 vörur voru óverðmerktar, átta vörur eða 4% voru með hærra verði á kassa en verðmerking í hillu og 23 vörur eða 11,5% með lægra verði á kassa. Tvær af verslunum átta voru með allar verðmerkingar í fullkomnu lagi, Bónus Fitjum og Samkaup/Úrval Krossmóum.
Kannaðar voru verðmerkingar í fjórum bakaríum, í kæli annars vegar og borði hins vegar.
Kornið, Reykjanesbæ, og Héraðsstubbur, Grindavík, voru með allar verðmerkingar í góðu lagi.
Farið var í tvær fiskbúðir í Reykjanesbæ og voru verðmerkingar í góðu lagi hjá Fiskisögu en hjá Fiskbúðinni Vík var ástand verkmerkinga í hillu ábótavant
Verðmerkingar voru kannaðar í 39 sérvöruverslunum bæði inni í verslunum og í sýningargluggum. Ástand verðmerkinga var almennt mjög gott en þó voru dæmi þess að allt væri ómerkt í gluggum.
Ábendingum vegna rangra eða ófullnægjandi verðmerkinga má koma til Neytendastofu í gegnum rafræna Neytendastofu á vefslóðinni www.rafraen.neytendastofa.is.