Fara yfir á efnisvæði

Mikill verðmunur á milli bakaría.

12.10.2009

Fulltrúar neytendastofu hafa undanfarið gert tvær verðkannanir hjá bakaríum þar sem farið var í 53 bakarí á höfuðborgarsvæðinu og skoðaðar sjö vörutegundir: Kringla, birkirúnstykki, skúffukökusneið, snúður með glassúr, vínarbrauðslengja, kókoskúla og kókómjólk. Fyrri könnunin var gerð dagana 25.-27. ágúst sl. en sú seinni var gerð dagana 24.-25. september sl.

Niðurstöður verðkönnunar:

Verðkönnun dagana 24.-25. september leiddi í ljós að lægsta verð á birkirúnstykki var 50 kr hjá Bernhöftsbakaríi og það hæsta var 135 kr hjá Kökulist. Verðmunurinn var því 85 kr eða 170 %.
Sami verðmunur var á kringlum en þar var Bernhöftsbakarí ódýrast en dýrastar voru kringlurnar hjá Jóa Fel og Kökulist.
Skúffukökusneiðar voru  dýrastar hjá Björnsbakaríi við Klapparstíg á 290 kr en ódýrastar hjá Hagabakaríi í Hraunbergi en þar kostaði sneiðin 210 kr eða 38% verðmunur.
20% verðmunur var á snúði með glassúr, ódýrastur hjá Hagkaupum, Holtagörðum, Smáralind og Spöng 179 kr en dýrastur hjá Bakarameistaranum og Bæjarbakaríi á 215 kr. Það vakti athygli fulltrúa Neytendastofu að tvö mismunandi verð eru á snúði með glassúr í verslunum Hagkaupa. Í þremur þeirra var verðið 179 kr en svo í öðrum þremur var verðið 199 kr. Mitt Bakarí og Þórsbakarí voru með lægsta verðið á kókoskúlum eða 110 kr en hæst var verðið hjá Passion 210 kr eða 91% verðmunur.
Þegar verð á vínarbrauðslengjum var skoðað kom í ljós að verðmunurinn var 230 kr. Lægsta verð á vínarbrauðslengju var á tilboði hjá Bakarameistaranum á 430 kr, en hjá Bernhöftsbakaríi var lægsta verð 499 kr og það hæsta var 660 kr hjá Reyni Bakara. Þar munaði því 53 % á hverri lengju miðað við tilboðsverð.
Einnig leiddi könnunin í ljós að lægsta verð á kókómjólk var 88 kr í verslun Hagkaupa Litlatúni en það hæsta var 150 kr hjá Café Konditori Copenhagen eða 70 % verðmunur. Þarna kom aftur fram ósamræmi á verði milli verslana Hagkaupa, en Hagkaup Litlatúni var með kókómjólk á 88 kr, í Hagkaupum Smáralind kostaði fernan 90 kr og í verslun Hagkaupa í Spöng kostaði hún 93 kr.


Verðhækkanir á milli kannana:

Á fjórum vikum hækkaði verð hjá 25 af 53 bakaríum, þar af hækkuðu 19 bakarí í eigu sex fyrirtækja verð á þremur vörutegundum eða fleiri á milli kannana, en það voru Bakarameistarinn, Kornið, Kökuhúsið, Okkar bakarí, Passion og Þórsbakarí. Algengast var að verð á snúðum og kókoskúlum hækkaði. Mest var 15% hækkun á snúði með glassúr, úr 200 kr í 230 kr, hjá Kökuhúsinu. Hjá Okkar bakaríi hækkaði kókoskúla úr 110 kr í 125 kr eða um 13,6%. Mest hækkaði verð á kringlu um 18,2% hjá Þórsbakaríi, úr 110 kr í 130 kr. Vínarbrauðslengjan hækkaði hlutfallslega mest hjá Okkar bakaríi, en hún fór úr 550 kr í 635 kr eða 15,5% hækkun. Hjá Bakarameistaranum hækkaði skúffukökusneiðin úr 245 kr í 270 kr eða um 10%. Einn aðili hækkaði verð á birkirúnstykki á þessu tímabili, það var Kökulist úr 130 kr í 135 kr eða um 3,9%.  Að lokum hækkaði kókómjólk um 18,2% hjá Þórsbakaríi, úr 110 kr í 130 kr.

Eins og sjá má er um umtalsverða hækkun að ræða á skömmum tíma. Ekki var óskað eftir skýringum á verðhækkunum. Þann 1. september tóku gildi hækkanir á vörugjöldum á mat- og drykkjarvörum meðal annars á sykur sem ættu þó ekki að vera orsök þessara hækkunar þar sem bakarí geta fengið undanþágu frá vörugjöldum á vörur sem notaðar eru til eigin framleiðslu.

TIL BAKA