Fara yfir á efnisvæði

Auglýsingar um 100% örugga ávöxtun bannaðar

21.05.2010

Fréttamynd

Í auglýsingum Sparnaðar á viðbótarlífeyrissparnaði var fullyrt að um væri að ræða 100% fjármögnunarvernd og því væri 100% örugg ávöxtun á sparnaðinum. Neytendastofu barst kvörtun frá Landsbankanum vegna auglýsinganna og hefur stofnunin nú tekið þá ákvörðun að banna auglýsinguna þar sem fullyrðingar í henni brjóta gegn ákvæðum laga um eftirlit með viðskiptaháttum og markaðssetningu.

Um er að ræða viðbótarlífeyri sem ávaxtaður er í Þýskalandi og því taka íslenskir neytendur ávallt á sig ákveðna gengisáhættu. Þrátt fyrir að tryggð sé ákveðin ávöxtun á það við um sparnaðinn í evrum. Neytendur á Íslandi verða að kaupa evrur fyrir íslenskar krónur þegar sparnaðurinn er lagður fyrir og selja evrur fyrir íslenskar krónur þegar sparnaðurinn er tekinn út. Áhætta vegna misræmis í gengi er á neytendum og því taldi Neytendastofa fullyrðinguna ekki geta staðist. Þá taldi stofnunin að þar sem fullyrt hafði verið að ávöxtunin væri örugg væri það brot á lögunum að greina ekki frá því að neytendur tækju á sig gengisáhættu.

Ákvörðun nr. 25/2010 má lesa í heild sinni hér

TIL BAKA