Bensínstöðvar á höfuðborgarsvæðinu
Í ágúst síðastliðnum voru kannaðar 72 bensínstöðvar á höfuðborgarsvæðinu. Skoðað var hvort verðmerkingar væru í samræmi við ákvæði reglna um verðmerkingar. Einnig var athugað hvort eldsneytisdælur (bensín og dísel) væru með löggildingu ásamt því að skoðað var hvort löggildingarmiði væri sýnilegur.
Allar stöðvar nema ein voru með upplýsingar um bensínverð réttar og verð á verðskiltum.
Sala á eldsneyti á að fara fram á löggiltum eldsneytisdælum og löggildingarmiði á að vera sýnilegur á aðgengilegan hátt. Gerðar voru athugasemdir við níu stöðvar af 72 eða 12,5% af heildarfjölda. Tvær athugasemdir voru gerðar við að löggilding væri útrunnin. Á sjö stöðum voru gerðar athugasemdir við að löggildingarmiða vantaði. Óskað verður eftir skýringum á því hvað veldur því að löggildingarmiða vantar ásamt tilmælum um að ólöggiltar eldsneytisdælur á tveimur bensínstöðvum verði löggiltar.
Af þeim 72 stöðvum sem voru kannaðar bjóða 36 uppá sérvörur. Verðmerkingar voru almennt þokkalegar og voru 10 stöðvar með allar verðmerkingar í lagi: Orkan Gylfaflöt, Rvk., N1 Hringbraut, Rvk. og Háholti, Mosfb., Olís Skúlagötu, Háaleitisbraut, Rvk. og Hamraborg, Kóp., Skeljungur Bústaðavegi, Kleppsvegi, Laugavegi, Birkimel og Vesturlandsvegi, Rvk.