Könnun á þyngd bökunarvara
Neytendastofa gerði könnun á þyngd forpakkninga á sex vörutegundum og kannaði um leið hvort þær væru e-merktar. Skoðað var Síríus Konsum súkkulaði frá Nóa Síríus, Frón Pipar dropar frá Íslensk Ameríska, Matarsódi frá Pottagöldrum, gróft Kókosmjöl merkt Hagveri frá Góðu fæði og frá Eðal bæði Kötlu púðursykur og Kötlu glassúr. Kannað var hvort þyngd væri í samræmi við upplýsingar á umbúðunum í kjölfar ábendinga frá neytendum. Allar vörurnar stóðst kröfur um þyngd nema vörurnar frá Kötlu.
Niðurstaðan leiddi í ljós að nettóþyngd bæði Kötlu púðursykurs og glassúrs voru undir leyfilegum mörkum. Glassúrinn reyndist við vigtun vera að meðaltali um 30% undir nettóþyngd, meðaltalið var um 103 g en samkvæmt pakkningu á varan að vega 150 g. Hver einasta pakkning var léttari en leyfilegt er. Einnig vantaði upp á að þyngd Kötlu púðursykursins stæðist kröfur en sykurinn er merktur 500 g en um helmingur pokanna var meira en 2% undir og meðalþyngdin reyndist líka minni en leyfilegt er.
Könnunin sýnir enn og aftur að athuganir Neytendastofu að undanförnu á forpökkuðum vörum eru mikilvægar til að auka aðhald að markaðnum. Mikilvægt er að tryggja að forpakkaðar vörur uppfylli kröfur um þyngd. Það stuðlar bæði að réttmætum viðskiptaháttum og eflir neytendavernd.
Ábyrgð á þyngd vöru er hjá framleiðendum en þeim ber að tryggja með löggiltum vogum að nettóþyngd sé í samræmi við merkingar á umbúðum. Neytendastofa hvetur framleiðendur til að virða gildandi reglur um magntilgreiningu á umbúðum og tryggja að magn vöru sem afhent er sé ávallt í samræmi við þyngdarmerkingar á umbúðunum.
Stofnunin mun halda áfram að taka við ábendingum og gera úrtaksskoðanir á ýmsum sviðum vöruviðskipta.