Fara yfir á efnisvæði

Ákvarðanir Neytendastofu vegna auglýsinga Húsasmiðjunnar staðfestar að hluta

15.02.2011

Með ákvörðun Neytendastofu nr. 50/2010 var Húsasmiðjunni bannað að nota  fullyrðinguna „Lægsta lága verðið“ í auglýsingum sínum. Í kjölfar ákvörðunarinnar óskaði Húsasmiðjan eftir samvinnu við stofnunina um það hvernig auglýsingunum skyldi háttað og lauk því með bréflegri ákvörðun Neytendastofu, dags. 28. október 2010. Í þeirri ákvörðun voru sett fram þau skilyrði sem stofnunin taldi að auglýsingarnar þyrftu að uppfylla.

Húsasmiðjan kærði ákvarðanir stofnunarinnar til áfrýjunarnefndar neytendamála sem nú hefur staðfest bannákvörðun Neytendastofu nr. 50/2010 en fellt úr gildi ákvörðun stofnunarinnar frá 28. október 2010.

Í úrskurðinum kemur fram vegna fyrri ákvörðunarinnar að fallist sé á það að fullyrðingin verði ekki skilin með öðrum hætti en að Húsasmiðjan bjóði lægsta lága verðið á markaðnum. Húsasmiðjan hafi ekki fært sönnur á fullyrðinguna og því teljist hún brjóta gegn ákvæðum laga nr. 57/2005.

Um síðari ákvörðun stofnunarinnar segir í úrskurðinum að þrátt fyrir að Neytendastofa hafi heimild í lögum nr. 57/2005 til þess að gefa fyrirmæli og veita heimild með ákveðnum skilyrðum þá hafi áfrýjunarnefndin efasemdir um að það að gefa ítarleg og margþætt fyrirmæli um hvernig auglýsingum skuli háttað fái stoð í ákvæðinu. Í því geti falist of mikið inngrip í tjáningarfrelsi auglýsanda. Telur áfrýjunarnefndin að eðlilegur farvegur hefði verið að Neytendastofa bannaði hinar breytti auglýsingar og legði eftir atvikum á stjórnvaldssektir vegna þeirra, og færði rök fyrir hvoru tveggja. Veita verði fyrirtækjum svigrúm til að útfæra auglýsingar sínar enda sé það á ábyrgð fyrirtækjanna sjálfra að tryggja að auglýsingar þeirra séu í samræmi við lög nr. 57/2005 og ákvarðanir Neytendastofu. Í úrskurðinum segir jafnframt að engin afstaða sé tekin til þess hvort hinar breyttu auglýsingar samrýmist lögum nr. 57/2005 eða ákvörðun Neytendastofu nr. 50/2010. Gengið sé út frá því að núverandi markaðssetning Húsasmiðjunnar komi til athugunar Neytendastofu með framangreind sjónarmið fyrir augum.

Úrskurðinn má lesa í heild sinni hér.

TIL BAKA