Verðmerkingar á réttri leið
Starfsmaður Neytendastofu fylgdi eftir könnun sem gerð var í janúar sl. á verðmerkingum hjá hársnyrtistofum á höfuðborgarsvæðinu. Farið var á 54 hársnyrtistofur, en tvær hársnyrtistofur voru lokaðar þegar komið var að. Skoðað var hvort að verðskrár væru sýnilegar viðskiptavinum og hvort söluvörur væru verðmerktar.
Aðeins fimm hársnyrtistofur (10%) voru ekki búnar að setja upp verðskrá og átta stofur voru ekki með verðmerkingar á söluvörum sínum í lagi. Eigendur hársnyrtistofa eiga því enn nokkuð í land með að koma verðmerkingum í lag, en eru þó á réttri leið.
Viljum við minna neytendur á að einfalt er að skrá sig í rafræna neytendastofu á heimasíðu okkar www.neytendastofa.is, þar sem hver og einn getur haldið utan um þær ábendingar sem viðkomandi sendir inn til okkar og fylgst með framvindu þeirra mála.