Fara yfir á efnisvæði

Dagur mælifræðinnar

20.05.2010

Fréttamynd

Í dag er haldinn hátíðlegur dagur mælifræðinnar en 20. maí árið 1875 var metrasamþykktin undirrituð af 17 ríkjum í París í þeim tilgangi að tryggja heildstætt alþjóðlegt mælieiningakerfi. Í dag eru aðildarþjóðirnar 54 og þjóðir með aukaaðild eru 28 og því eru um áttatíu þjóðir með aðild að alþjóðamælifræðistofnuninni BIPM.

Metrinn var fyrst skilgreindur árið 1791 sem „einn tíumilljónasti partur af lengdinni frá pól að miðbaug í gegnum París”. Lið landmælingamanna  mældi hluta vegalengdarinnar eða á milli Dunkirk og Barcelona á sjö árum. Eftir skilgreiningunni var platín metrastöngin búin til sem skilgreindi metrann fyrstu árin. Í dag er metrinn skilgreindur út frá ljósbylgjum.

Fyrstu lagasetningu um mál og vog á Íslandi er að finna í Jónsbók frá 1281 en þar er svo mælt: pundarar, stikur og mælikeröld skulu liggja á Þingvelli undir lögmannslási
eftir því skuli sýslumenn rétta tæki sín og eftir þeirra tækjum bændur.

Árið 1907 var metramál löggilt á Íslandi og sett ákvæði um umreikning eldri eininga í metramál. Lögreglustjórum var falið að framfylgja lögunum Árið 1915 voru sett lög, sem tóku gildi 1. janúar 1916, um löggilta vigtarmenn. Á næstu árum og áratugum voru sett ýmis lög og reglur um mælingar eins og t.d. um rafeindavogir þegar þær komu fyrst fram.

Í dag eru í gildi lög nr. 91/2006 um mælingar, mæligrunna og vigtarmenn og hefur Neytendastofa samkvæmt þeim það hlutverk að sjá um að mál og vog á Íslandi njóti trausts bæði innan lands og utan. Í því felst m.a. að hafa eftirlit með vogum, bensíndælum, vínmálum, raforkumælum, vatnsmælum. Til þess aflar og varðaveitir Neytendastofa mæligrunna á borð við massamæligrunna, hitamæligrunna, þrýstimæligrunna, raforkumæligrunna, spennumæligrunna og lengdarmæligrunna. Auk þess rekur Neytendastofa faggilta kvörðunarþjónustu til að þjónusta aðila sem hafa eftirlit með mælingum og einnig fyrirtæki með gæðakerfi sem þurfa á kvörðunum að halda eins og t.d. rannsóknarstofur sem mæla efnainnihald matvæla. 

TIL BAKA