Líkamsræktarstöðvar þurfa að taka sig á í verðmerkingum
Dagana 5. og 6. janúar sl. kannaði starfsmaður Neytendastofu verðmerkingar hjá líkamsræktarstöðvum á höfuðborgarsvæðinu. Farið var í 21 líkamsræktarstöð og kannað hvort verðskrá yfir almenna þjónustu og yfir spa þjónustu, þar sem það átti við, væri sýnileg. Einnig var skoðað hvort verðmerkingar á veitingum og öðrum söluvörum væru til staðar.
Í þetta sinn var verðskrá ekki sýnileg hjá fimm af 21 líkamsræktarstöð, það voru Bootcamp, Grand Spa, Nordica Spa, Sporthúsið og World Class Spönginni og hjá einni stöð, Baðhúsinu, var einungis lítill hluti af verðskrá sýnilegur. Sjö stöðvar bjóða upp á spa þjónustu en verðskrá var ekki sýnileg hjá þremur þeirra. Þetta er svipað og í síðustu könnun.
Verðmerkingar á veitingum voru mun betri en í fyrri könnun, af þeim 19 stöðvum sem seldu veitingar voru 14 með verðmerkingar í lagi. Verðmerkingar á söluvörum voru ekki alveg eins góðar, af 20 stöðvum sem voru með ýmis konar vörur til sölu voru 12 stöðvar með verðmerkingar í lagi.
Þó verðmerkingar á líkamsræktarstöðvum hafi komið betur út nú en í fyrri könnun, er réttur neytenda til skýrra og aðgengilegra verðmerkinga greinilega ekki virtur alls staðar og þurfa eigendur líkamsræktarstöðva að gera átak í þessum málum. Ef neytendur vilja koma ábendingum til okkar varðandi verðmerkingar eða annað þá bendum við á heimasíðu Neytendastofu.