Fara yfir á efnisvæði

Nýtt kerfi fyrir vigtarmenn

30.03.2009

Neytendastofa er að taka í notkun nýtt kerfi til að skrá þátttakendur á námskeið til löggildingar vigtarmanna, til að sækja um bráðabirgðalöggildingu og birta lista yfir löggilta vigtarmenn.

Löggiltur vigtarmaður ber ábyrgð á vigtun sem hann vottar í samræmi við viðurkennda starfshætti þeirrar vigtunaraðferðar sem notuð er hverju sinni. Í því felst að löggiltur vigtarmaður skal sjálfur vera viðstaddur vigtun, hann tryggir alla framkvæmd hennar og staðfestir hana með undirritun sinni á vigtarvottorð sem hann ber ábyrgð á í samræmi við lög og reglur settar samkvæmt þeim.

Löggiltir vigtarmenn starfa til dæmis á hafnarvogum landsins og gegna þar hlutverki við fiskveiðistjórnunarkerfið og einnig í fiskvinnsluhúsum. Einnig starfa þeir við vigtun sorpa, malbiks og fleira.

Helsta nýjungin við nýja vigtarmannakerfið er að hægt er að sækja um námskeið eða bráðabirgðalöggildingu beint á vefsíðu Neytendastofu og skráist þá umsóknin sjálfkrafa í kerfið. Einnig verður birtur listi yfir þá aðila sem hafa löggildingu á vef Neytendastofu.

Þá er ætlunin að kynna Rafræna Neytendastofu á vigtarmannanámskeiðum og hvernig hægt er að skrá sig á hana til að nota þá kosti sem þar eru í boði eins og að koma á framfæri ábendingum um ólöggilt mælitæki. Rafræna Neytendastofu mun svo m.a geta nýst til að kom tilkynningum til vigtarmanna um málefni er þá varðar eins og um breytingar á lögum og reglugerðum og um námskeið.

Skráning á námskeiðið 4.-6. maí og endurmenntunarnámskeiðið 11. maí  fer í gegnum nýja skráningarkerfið.


 

TIL BAKA