Fara yfir á efnisvæði

Myndband um hættuleg bönd í barnafatnaði

19.07.2010

Fréttamynd

Á hverju ári verða börn fyrir slysum um allan heim vegna banda eða reima í fötum og hafa sum þeirra verið banvæn. Löng bönd í flíkum barna hafa m.a. flækst í reiðhjólum, hurðum, bílhurðum og í leikvallatækjum. Þess konar atvik geta leitt til alvarlegra áverka og jafnvel til dauða.

Vegna þessarar hættu ákvað PROSAFE að gera átak í skoðun á barnafötum. Á árinu lauk tveggja ára verkefni PROSAFE og 11 aðildarríkja EES þar sem athugað var hvort enn væru á markaði barnaföt með hættulegum áföstum böndum og reimum. Niðurstaðan var að enn væri þetta algengt í fötum sem seld eru í Evrópu. Í kjölfarið var ákveðið að framleiða myndband sjá hér
til að upplýsa framleiðendur, innflytjendur, hönnuði, smásala og foreldra og forráðamenn um hætturnar sem bönd og reimar í barnafötum geta valdið og gerður listi yfir mikilvægustu atriðin sem neytendur ættu að hafa í huga varðandi barnaföt.

Stjórnvöld í þeim ríkjum sem tóku þátt í verkefninu þurftu á meðan á því stóð að grípa til aðgerða vegna meira en 2100 flíka sem uppfylltu ekki öryggiskröfur varðandi barnaföt. 2/3 af fötunum voru á ung börn (0-7 ára). Algengast var eða í 60% tilvika að bönd eða reimar væru í hettu eða hálsmáli en í fötum fyrir börn á aldrinum 0-7 ára (hæð 1,34 m) ættu ekki að vera nein bönd eða reimar í hettum eða hálsmáli.  Fyrir börn á aldrinum 7-14 ára ættu ekki að vera nein bönd lengri en 7,5 cm í hettu eða hálsmáli.  Í 20% tilvika þá var um að ræða reimar eða bönd í kringum brjóstkassa og mitti.

Neytendastofu hafa borist á þessu ári yfir 300 tilkynningar um innkallanir  vegna barnafatnaðar sem er á markaði í EES sem ekki hefur uppfyllt kröfur sjá nánar hér.

Neytendastofa hvetur fólk til að athuga föt barna sinna og fjarlægja eða stytta bönd og reimar sem ekki uppfylla kröfur varðandi barnaföt, líkt og  kemur fram í myndbandinu.
Ef þú hefur nýlega keypt barnaföt sem virðast ekki í lagi þá ættir þú að fara í verslunina þar sem þú keyptir vöruna og vara seljandann við hættunni sem stafar af flíkinni og biðja um að fá að skipta henni. Þú getur líka haft samband við Neytendastofu.

Að lokum vill Neytendastofa koma á framfæri að taki fólk eftir að verið er að selja barnaföt í verslunum sem virðast ekki uppfylla kröfur um barnaföt er það hvatt til að láta afgreiðslufólk verslunarinnar vita og senda ábendingu til Neytendastofu í gegnum rafræna neytendastofu.

TIL BAKA