Sælgæti í kvikmyndahúsum óverðmerkt
Neytendastofu hafa borist fjölmargar athugasemdir að undanförnu um lélegar verðmerkingar á söluvörum hjá kvikmyndahúsum á höfuðborgarsvæðinu. Starfsmenn stofnunarinnar gerðu athugun á verðmerkingum í afgreiðsluborði og nammibar hjá Háskólabíói, Smárabíói, Regnboganum, Laugarásbíói og Sambíóunum Álfabakka og Kringlunni.
Öll kvikmyndahúsin á höfuðborgarsvæðinu þurfa að taka sig taki varðandi verðmerkingar í afgreiðsluborði. Hjá Sambíóunum í Álfabakka var ástand verðmerkinga í afgreiðsluborð viðunandi en ábótavant hjá öðrum. Fimm kvikmyndahús eru með nammibar og var ekkert af þeim með kílóverð sýnilegt. Neytendastofa mun fylgja könnuninni eftir og verði ekki farið að tilmælum stofnunarinnar má búast við að tekin verði ákvörðun um sektir.
Neytendastofa mun halda áfram að fylgja eftir reglum um verðmerkingar og veita fyrirtækjum landsins nauðsynlegt aðhald. Neytendur geta komið ábendingum á framfæri undir nafni með skráningu notenda eða sem nafnlausa ábendingu.