27.03.2009Þegar keyptir eru skartgripir þá getur kaupandi ekki gert sér grein fyrir hversu mikið magn af eðalmálmi þ.e. gulli, silfri, palladíum og platínum eru í skartgripnum með því einu að snerta hann eða horfa á hann. Eina staðfestingin sem fólk hefur á því hversu mikið hlutfall eðalmáls er í hlutnum er hreinleikastimpill. Neytendastofa vill því benda fólki á að skartgripir úr eðalmálmi sem seldir eru á Íslandi eiga að vera merktir með hreinleikastimpli. Hreinleikastimpill er þriggja tölustafa stimpill sem segir til um þann hreinleika sem seljendur lofa við sölu á vörunni. Í eftirfarandi töflu sést hvaða hreinleiki er viðurkenndur á Íslandi og kemur fram í stimpli.
Eðalmálmur |
Staðlaður hreinleiki |
Gull |
375, 585, 750, 916
|
Silfur |
800, 830, 925 eða 800S, 830S, 925S. |
Platína |
850, 900, 950 850, 900, 950 eða 850Pt, 900Pt, 950Pt. |
Palladium |
500, 950 eða 500Pd, 950Pd. |
|
|
Hreinleikastimplar á vörum frá ríkjum innan Evrópska efnahagssvæðisins eru jafngildir innlendum stimplum, þó svo þeir séu ekki í samræmi við íslensk lög, svo framarlega sem þeir veita kaupendum sömu upplýsingar og íslensku hreinleikastimplarnir. Sem dæmi eru 18 mismunandi hreinleika staðlar í Evrópusambandinu fyrir hreinleika gulls: 333, 375, 417, 500, 583, 585, 750, 800, 833, 835, 840, 900, 916, 958, 960, 986, 990 og 999. Fyrir silfur eru 15 mismunandi tegundir af hreinleikastimplum.
Það þarf ekki að merkja vöru með hreinleikastimpli ef varan er svo lítil að það er ekki hægt að merkja hana. Það sama gildir einnig ef vara úr gulli vegur minna en 1 g eða vara úr silfri er undir 3 g.
Hér áður voru karöt notuð sem mælikvarði á hreinleika gulls og platínum. Eitt karat er 1/24 hreinleiki gulls, þar af leiðandi er skartgripur úr hreinu gulli 24 karöt, skartgripur sem er 18 karöt er 75% gull, 12 karöt eru 50% gull og svo framvegis. Samkvæmt íslenskum lögum á ekki að merkja vörur með karötum heldur í þúsundhluta miða við þunga málmblöndunnar, sem dæmi er vara sem inniheldur 75% hreint gull merkt með 750.
Karöt |
Staðlaður hreinleiki |
24 karöt |
999 |
20 karöt |
833 |
18 karöt |
750 |
15 karöt |
625 |
14 karöt |
585 |
10 karöt |
418 |
9 karöt |
375 |
Markmiðið með lögum nr 77/2002 um vörur unnar úr eðalmálmum er m.a. að vernda neytendur fyrir svikum með því að gera kröfu um að vörur úr eðalmálmi beri hreinleikastimpla. Neytendur geta því gengið úr skugga um það að skartgripur innihaldi í raun það magn af hreinum eðalmálmi sem seljandi heldur fram með því að athuga hvort hreinleikastimpill sé á skartgripnum og hver hreinleikinn sé samkvæmt stimplinum.
Neytendastofa sér um eftirlit með vörum unnum úr eðalmálmum. Ábendingum vegna rangra eða ófullnægjandi merkinga má koma til Neytendastofu í gegnum rafræna Neytendastofu.