Húsasmiðjunni bannað að auglýsa Lægsta lága verðið
Neytendastofa hefur með ákvörðun nr. 50/2010 bannað Húsasmiðjunni að notast við fullyrðinguna „Lægsta lága verðið“ í auglýsingum sínum.
Neytendastofa fór fram á það við Húsasmiðjuna að hún færði sönnu á fullyrðinguna eins og lög gera ráð fyrir. Í skýringum Húsasmiðjunnar kom fram að fullyrðingin vísaði til þess að valdar vörur væru á því lægsta verði sem Húsasmiðjan gæti boðið viðskiptavinum sínum upp á. Með henni væri því ekki vísað til keppinauta.
Neytendastofa féllst ekki á þessar skýringar og taldi fullyrðinguna vísa til þess að af þeim verslunum sem bjóða umræddar vörur sé það lægst hjá Húsasmiðjunni. Þá taldi stofnunin að þær skýringar sem fram kæmu í auglýsingunum kæmu ekki í veg fyrir þann skilning að vísað væri til keppinauta.
Þar sem ekki komu fram fullnægjandi sönnun á fullyrðinguna taldi Neytendastofa hana villandi gagnvart neytendum og til þess fallna að hafa áhrif á ákvörðun þeirra um viðskipti. Auk þess sem fullyrðingin bryti gegn keppinautum Húsasmiðjunnar.
Neytendastofa bannaði því birtingu fullyrðinganna.
Ákvörðun nr. 50/2010 má lesa í heild sinni hér.