Fara yfir á efnisvæði

Ástand verðmerkinga í matvöruverslunum á höfuðborgarsvæðinu

03.09.2008

Í nýliðnum ágústmánuði gerði Neytendastofa könnun á ástandi verðmerkinga í matvöruverslunum á höfuðborgarsvæðinu. Farið var í 77 verslanir og valdar af handahófi 25 vörur í hverri verslun. Heildarúrtak könnunarinnar var því 1.925 vörur. Kannað var hvort vörurnar væru verðmerktar og hvort verðmerking á hillu samræmdist verði í kassa.

Neytendastofu hafa borist margar kvartanir vegna slæmra verðmerkinga í matvöruverslunum og kom því ekki á óvart að könnunin skyldi leiða í ljós að ástandi verðmerkinga í matvöruverslunum sé almennt ábótavant.

Af verslununum 77 voru 6 verslanir ekki með neinar athugasemdir. Þær eru 11-11 Grensásvegi, 11-11 Grafarholti, 11-11 Þverbrekku, Krónan Háholti, Nóatún Hringbraut og Samkaup Búðakór. Athugasemdir í öðrum verslunum voru misjafnlega margar, allt frá einni athugasemd í 19 af þeim 25 vörum sem skoðaðar voru. Verst var ástand verðmerkinga í verslunum 10-11 Borgartúni, 10-11 Lyngási, 10-11 Staðarbergi og 10-11 Firði þar sem hlutfall athugasemda vegna verðmerkinga var yfir 50%.
Heildarniðurstöður könnunarinnar eru þær að af vörunum 1.925 voru verðmerkingar í ólagi í 16% tilvika. Til samanburðar má þess geta að árið 2006 voru verðmerkingar í 12,2% tilvika í ólagi og 5,2% árið 2005, sjá nánar hér.
 
Í kjölfar könnunarinnar hyggst Neytendastofa senda öllum verslunarkeðjum bréf þar sem greint er frá ástandi í hverri og einni verslun. Könnuninni verður fylgt eftir og ef þurfa þykir teknar ákvarðanir um hugsanleg viðurlög vegna slæms ástands verðmerkinga.

Með auknu eftirliti vonast Neytendastofa til þess að ástandi verðmerkinga verði komið í betra horf.

Ábendingum vegna rangra eða ófullnægjandi verðmerkinga má koma til neytendastofa í gegnum rafræna Neytendastofu á vefslóðinni rafraen.neytendastofa.is.


 

TIL BAKA