Fara yfir á efnisvæði

Neytendastofa bannar auglýsingar N1

22.01.2013

Neytendastofu barst kvörtun frá Skeljungi vegna auglýsinga N1 um 3% minni eyðslu með notkun eldsneytis frá N1 sem innihaldi fjölvirk bætiefni. Auglýsingarnar komu m.a. fram á heimasíðu og bensíndælum félagsins. Var tekið fram að fullyrðingin væri byggð á prófunum þýskrar rannsóknarstofu.

Kvörtun Skeljungs snéri að því að auglýsingarnar væru villandi á þann hátt að neytendur gætu ekki áttað sig á því að eldsneyti með bætiefnum væri borið saman við bætiefnalaust eldsneyti. Þá væri ekki sannað að neytendur gætu dregið úr eldsneytiseyðslu eins og fram komi í auglýsingunum.

Neytendastofa komst að þeirri niðurstöðu að N1 hefði brotið lög með fullyrðingu sinni um 3% minni eyðslu með notkun eldsneytis frá félaginu. Taldi Neytendastofa fullyrðinguna ganga of langt þar sem N1 hefði ekki sýnt fram á minni eyðslu með notkun eldsneytisins, auk þess sem hún hefði ekki verið í samræmi við þá rannsókn sem fullyrðingin væri byggð á. Einnig væri um að ræða villandi samanburð þar sem neytendur gætu ekki áttað sig á að borið væri saman eldsneyti með bætiefnum við bætiefnalaust eldsneyti. Var N1 bönnuð birting auglýsinganna.

Ákvörðunina má lesa í heild sinni hér.

TIL BAKA