Verðskrá tannlækna á höfuðborgarsvæðinu
Starfsmenn Neytendastofu hafa síðustu daga verið að skoða hvort verðskrá hjá 149 tannlæknum á höfuðborgarsvæðinu sé birt. Samkvæmt reglum um verðupplýsingar tannlækna nr. 383/2007 skulu tannlæknar birta með áberandi hætti verðskrá yfir helstu þjónustuliði og skal verskrá yfir alla þjónustu þeirra liggja frammi. Í 78% tilfella var verðskrá yfir helstu þjónustuliði birt með áberandi hætti en 33 tannlæknar voru ekki með verðskrá sýnilega. Þeir fá senda skriflega áminningu þar sem þeim verður gefinn kostur á að fara að tilmælum Neytendastofu um úrbætur eða eiga það á hættu að gripið verið til sekta.
Ef óskað var eftir verðskrá yfir alla þjónustuliði þá var hún til staðar hjá öllum tannlæknum en í mörgum tilfellum ekki nægjanlega aðgengileg.
Neytendastofa mun halda áfram að fylgja eftir rétti landsmanna og veita fyrirtækjum landsins nauðsynlegt aðhald sem skilar sér í formi góðra verðmerkinga.