Fara yfir á efnisvæði

Slæmt ástand verðmerkinga í matvörubúðum

10.07.2013

Dagana 3. – 24 júní sl. gerði Neytendastofa könnun á ástandi verðmerkinga hjá matvöruverslunum á höfuðborgarsvæðinu. Farið var í 78 verslanir og valdar af handahófi 50 vörur í hverri verslun. Heildarúrtak könnunarinnar voru því 3.900 vörur. Kannað var hvort vörurnar væru verðmerktar, hvort einingarverð vöru kæmi fram og hvort verðmerking í hillu samræmdist verði á kassa. Verðmerking verður að vera sýnileg og ekki má fara á milli mála til hvaða vöru hún vísar. Einnig voru kannaðir skannar í verslunum, staðsetning þeirra og hvort þeir væru í lagi.

Af 78 verslunum voru einungis tvær verslanir Bónus í Holtagörðum og Bónus í Kringlunni sem voru í fullkomnu lagi. Engin athugasemd var gerð í þeim verslunum.  Hjá 57 verslunum var ósamræmi á milli verðs á kassa og í hillu þar af voru hjá 38 verslunum verð hærra á kassa en í hillu.  Mesta ósamræmið á verði á kassa og hillu var í Krónunni Rofabæ en helmingurinn af þeim vörum sem voru skoðaðar voru eða 25 vörur af 50. Næstmest var ósamræmi á 7 vörum af 50 hjá verslununum Bónus í Spönginni, Nóatúni á Hringbraut, Krónunni á Hvaleyrarbraut, Nettó í Hverafold og hjá Samkaupum í Suðurveri. Oftast var munurinn á milli hilluverðs og kassaverðs ekki mikill en gat þó numið umtalsverðu eða allt að 70%.

Það er nauðsynlegt að neytendur geti áttað sig á hagkvæmustu kaupunum þar sem úrval af vörum er mikið og pakkningar misstórar. Til að auðvelda neytendum verðsamanburð hafa verið settar reglur sem skylda verslunareigendur til að gefa upp einingarverð samhliða söluverði. Hjá verslunum Pétursbúð, Mini market, Plúsmarkaðnum og Sunnubúð vantaði upplýsingar um einingaverð á allar 50 vörurnar sem skoðaðar voru.

Við skoðun á skönnum var niðurstaðan að það vantaði fleiri skanna í verslununum Nettó Hverafold og Nettó Salavegi einnig var óvirkur skanni í Bónus á Tjarnarvöllum.

Í kjölfar könnunarinnar hefur Neytendastofa sent öllum verslunum og verslunarkeðjum bréf þar sem greint er frá ástandi í hverri og einni verslun. Könnuninni verður fylgt eftir og ef þurfa þykir teknar ákvarðanir um hugsanleg viðurlög vegna slæms ástands verðmerkinga.

Með auknu eftirliti vonast Neytendastofa til þess að ástandi verðmerkinga verði komið í betra horf.

Ábendingum vegna rangra eða ófullnægjandi verðmerkinga má koma til Neytendastofu í gegnum rafræna Neytendastofu á vefslóðinni rafraen.neytendastofa.is.

TIL BAKA