Könnun á verði fasteignasala
Neytendastofa gerði könnun á kostnaði við sölu fasteigna hjá fasteignasölum sem koma að sölu íbúðarhúsnæðis. Í því fólst að kannað var hver söluþóknun væri annars vegar fyrir einkasölu og hins vegar almenna sölu, hvort og þá hve háa þóknun tekið væri ef eign selst ekki, hvort tekið væri umsýslugjald og að lokum kostnað vegna auglýsinga.
Þess skal tekið fram að í könnuninni fólst ekki samanburður á þjónustu sem fasteignasalarnir veita. Mjög misjafnt er milli fasteignasala hversu mikla þjónustu er veitt, t.a.m. hvort fasteignasalan tekur ljósmyndir og sýnir eign auk skjalagerðar. Munur á verði getur því meðal annars helgast af ólíkri þjónustu sem veitt er. Neytendur sem nýta sér þjónustu fasteignasala verða því að spyrjast fyrir um þá þjónustu sem veitt er um leið og verð hennar.
Neytendastofu bárust svör frá 60 fasteignasölum víðsvegar um landið
Söluþóknun við sölu
Hjá tveimur fasteignasölum er söluþóknun fyrir einkasölu föst fjárhæð en ekki prósentuhlutfall af söluverði, annars vegar rúm 210.000 kr. og hins vegar tæp 300.000 kr. Algengasta söluþóknunin fyrir einkasölu er á bilinu 1,7-1,95% en þóknunin er frá 0,1% og upp í 2,95%. Fyrir almenna sölu er algengasta þóknunin á bilinu 2-2,5% en þóknunin er á bilinu 0,1% til 3,5%. Þessar þóknanir eru flestallar án virðisaukaskatts en þjónusa fasteignasala ber 25,5% virðisaukaskatt. Neytendur þurfa að vera meðvitaðir um það þegar samið er um söluþóknun að virðisaukaskattur getur bæst við prósentutöluna en þess skal þá skýrt getið í þjónustusamningi.
Af svörum má sjá að söluþóknun er sett upp á verðbili sem getur munað 0,5-1 prósentustigi og því virðist þóknunin vera umsemjanleg upp að vissu marki.
Þóknun ef eign er ekki seld
Misjafnt er milli fasteignasala hvort þóknun sé tekin ef fasteign selst ekki. Af sölunum 60 sem þátt tóku í könnuninni tekur rétt rúmur helmingur, eða 52%, ekki þóknun ef eign selst ekki en 48% sem taka þóknun. Í þeim tilvikum þar sem tekin er þóknun er hún ákveðin föst fjárhæð. Ódýrust er hún 9.000 kr. en dýrust rúm 60.000 kr. Þóknun í þeim tilvikum þegar eign selst ekki er ætlað að standa straum af útlögðum kostnaði við skjalagerð, auglýsingar og myndatöku svo dæmi séu tekin.
Umsýslugjald
Af fasteignasölunum sem tóku þátt í könnuninni eru 17% sem ekki innheimta sérstakt umsýslugjald. Hjá sölum sem taka umsýslugjald er það á verðbilinu 20.000 kr. – 69.900 kr. Í þessu sambandi er rétt að ítreka að Neytendastofa kannaði ekki í hverju þjónusta eða umsýsla einstaka fasteignasala felst. Stofnunin aflaði því ekki skýringa á þessum mikla verðmun.
Auglýsingar
Samkvæmt svörum fasteignasalanna er algengt að notast sé eingöngu við rafrænar auglýsingar og felst enginn aukakostnaður í því fyrir seljendur. Sé auglýst í dagblaði virðist verðið ákvarðast af verðskrá fjölmiðilsins sem getur verði frá 1.000 kr. og upp í 27.500 kr.
Könnunin sýnir að mikill verðmunur getur verið á þjónustu fasteignasala. Eins og við öll önnur þjónustukaup er mikilvægt að neytendur leiti tilboða og fái skýrar upplýsingar um verð og allan mögulegan aukakostnað. Að sama skapi þurfa neytendur að vera meðvitaðir um að þjónusta hverrar og einnar fasteignasölu getur verið misjöfn og verð breytilegt í samræmi við það. Í einhverju tilvikum getur kostnaður við umsýslu verið innifalinn í söluþóknun en hjá öðrum er tekið sérstakt gjald fyrir umsýslu.
Við kaup á fasteignum þurfa neytendur auk þessa kostnaðar að gera ráð fyrir lántökukostnaði og þinglýsingar- og stimpilgjöldum.
Sjá nánari upplýsingar hér.