Bakarí bæta verðmerkingar
Dagana 15. – 25. Mars síðastliðinn fóru starfsmenn Neytendastofu á milli bakaría á höfuðborgarsvæðinu og könnuðu hvort farið væri eftir lögum og reglum um verðmerkingar. Farið var í 51 bakarí og skoðað hvort verðmerkingar í borði, í gos- og mjólkurkæli, hillum og öðrum kælum væru til staðar.
Í ljós kom að verðmerkingar í borði hafa lagast mikið frá síðustu heimsókn í ágúst 2009, þá voru 68% bakaría með verðmerkingar í borði í góðu lagi en nú hafði sú tala hækkað upp í 82%. Verðmerkingar í kæli voru í lagi í 81% tilvika, sem er svipað og í fyrri ferð. Nokkuð var um að verðmerkingar á öðru, s.s. hillum og kælum frammi á gólfi væri ábótavant, sex af 13 bakaríum sem eru með slíkar hillur eða kæla þurfa að bæta verðmerkingar þar verulega.
Gaman er að hrósa þeim sem vel gera, en í þetta sinn var 31 bakarí með verðmerkingar í fullkomnu lagi og listinn þar af leiðandi of langur til upptalningar. Þessi fyrirtæki eru augljóslega á réttri leið og vonumst við til að þessi jákvæða þróun haldi áfram því enn þurfa 20 bakarí að bæta verðmerkingar.
Við viljum hvetja neytendur til að halda áfram að senda inn ábendingar á rafrænni neytendastofu, það er ómetanleg aðstoð við eftirlitsstarf okkar.