Snyrtistofur koma illa út úr könnun á verðmerkingum
Dagana 13. jan. – 2. feb. sl. var gerð könnun á verðmerkingum á snyrtistofum á höfuðborgarsvæðinu. Farið var á 54 snyrtistofur og skoðað hvort verðskrá yfir þjónustu væri sýnileg og hvort söluvörur væru merktar á skýran og greinilegan hátt eins og lög gera ráð fyrir.
Neytendastofa kannaði nú í fyrsta sinn verðmerkingar hjá snyrtistofum og var ekki vanþörf á að minna á lög um verðmerkingar sem gilda um snyrtistofur jafnt sem annarskonar rekstur. Einungis 35 snyrtistofur (65%) voru með verðskrá sýnilega. Verðmerkingar á söluvörum voru síst skárri, hjá 31 stofu (62%) voru verðmerkingar ekki sem skyldi. Algengt er að það gleymist að verðmerkja snyrtivörustanda og sýnishorn, en að sjálfsögðu verða allar vörur sem stillt er upp að vera verðmerktar og eiga viðskiptavinir ekki að þurfa að spyrja um verð.
Það er því ljóst að eigendur snyrtistofa þurfa að kippa verðmerkingum í lag. Fengu 37 snyrtistofur áminningu um að laga merkingar sem fyrst og vonumst við til að eigendur taki vel við sér.