Fara yfir á efnisvæði

Útileiktæki

31.05.2013

Útileiktæki á einkalóðir og almennings leiksvæði
Neytendastofa vill benda neytendum sem hafa hug á að kaupa útileiktæki fyrir börn að kanna vel áður hvort nota eigi leiktækið á afgirtri einkalóð eða á opnu leiksvæði fyrir almenning. Stofnunin hefur fengið ábendingar um það að leiktæki sem ætluð eru til einkanota á lokuðum afgirtum svæðum séu sett á opin almenn leiksvæði. Af því getur skapast ákveðin hætta, m.a. þar sem gert er ráð fyrir því að leiktæki sem ætluð eru til einkanota fylgja ekki eins ströngum kröfum við framleiðslu og þau sem eru ætluð á almenningssvæði, þar sem gert er ráð fyrir að eftirlit með leiktækjum á einkalóð sé stöðugt allan ársins hring.

Útileiktæki á einkalóðir og lokuð svæði
Útileiktæki sem keypt eru í almennum verslunum teljast til leikfanga og eiga að vera CE-merkt. Þau eru einungis ætluð til einkanota á lokuðu / afgirtu svæði. Leiktæki þessi eru gjarnan ætluð ákveðnum aldurs hópi, oft þriggja til tíu ára, þar sem tekið er mið af þroska og þyngd barna við leik þar sem burðarþolsgeta þeirra er minni en burðarþolsgeta leikvallatækja sem ætluð er til notkunar af almenningi á opnum svæðum.
Þar sem kaðlar, háir kastarar og rennibrautir eru annars vegar er nauðsynlegt að vara við kyrkingar- og fallhættu séu börn án eftirlits. Þetta á við um öll leiktæki.

Í leiðbeiningum er fullorðnum bent á að fylgist með börnum við leik í leiktækjum. Geti foreldrar ekki haft stöðugt eftirlit má benda þeim á að auðvelt er að fjarlægja rólur  þannig að ekki sé hætta fyrir hendi að börn noti þær á annan hátt en talið er vera öruggt.

Útileiktæki á opin almennings leiksvæði
Sé ætlunin að setja upp leiktæki á opnum almennings leiksvæðum t.d. við fjöleignarhús, við leik- og grunnskóla, leiksvæði frístundahúsa, tjaldsvæða, verslunarhúsnæði og samkomustaði, þá má einungis setja þar upp viðurkennd leikvallatæki. Eftirlit með leikvallatækjum í notkun, ábyrgð á rekstri leikvallatækjanna, viðhaldi þeirra, innra eftirliti og að árleg aðalskoðun fari fram í samræmi við ákvæði reglugerðarinnar er í höndum einstaklinga og lögaðila sem bera ábyrgð á opnu leiksvæði og hafa fengið starfsleyfi og eru undir eftirliti viðkomandi heilbrigðisnefndar. Um eftirlit með leikvallatækjum í notkun hafa heilbrigðisnefndir undir umsjón Umhverfisstofnunar. Ýmsar aðrar upplýsingar s.s. um starfsleyfi og fleira má finna á vef Umhverfisstofnunar.

Leiðbeiningar
Sama hvort um er að ræða útileiktæki til einkanota eða til almenningsnota skal minnt á það að farið sé vandlega eftir leiðbeiningum við uppsetningu. Fylgið ávallt notkunarleiðbeiningar um hvernig eigi að setja þau saman og upplýsingar um hvaða hlutar geti verið hættulegir sé leiktækið ekki sett saman á réttan hátt.
Spyrjið verslunareigendur hvort þau tæki sem þið hafið í huga sé ætlað til uppsetningar á einkalóðum og afgirtum svæðum eða til almennings.
Hafið eftirlit með börnum í leiktækjum og kennið þeim að leika sér á sem öruggastan hátt. Forðist að klæða þau í fatnaði með böndum og að þau leiki sér með bakpoka með böndum, þar sem þau bönd geta einnig skapað kyrkingarhættu.

Nánari upplýsingar veitir Sesselja Th. Ólafsdóttir.

TIL BAKA