Fara yfir á efnisvæði

Neytendastofa bannar innflutning á raffanginu „Fog Machine“

18.11.2011

Neytendastofa hefur bannað afhendingu á raffanginu „Fog Machine“ til Valskaupa ehf. Raffangið var hluti af vörusendingu sem Tollstjóri stöðvaði þar sem grunur var um að CE-merkið væri falsað og varan væri ekki í samræmi við reglur sem gilda um öryggi raffanga.  Við rannsókn gat Valskaup ehf. ekki sýnt fram á að raffangið uppfylli kröfur sem gerðar eru varðandi öryggi raffanga. Í ljós kom að samræmisyfirlýsing var ekki fullnægjandi og CE merking vörunnar því óheimil, en á vörunni voru bókstafir sem virtust vera eftirlíking af samevrópska CE merkinu.

CE merkið þýðir að framleiðandi hafi gengið úr skugga um að varan samrýmist öllum grunnkröfum viðkomandi tilskipana, sem gilda um vöruna og staðfesti þannig að hún uppfylli allar öryggis-, heilbrigðis- og umhverfisverndarkröfur.  Með því að setja CE merki á vöru lýsir framleiðandinn því yfir að varan samræmist öllum lagaskilyrðum sem CE merki útheimtir.

Neytendastofa tók því ákvörðun um að Valskaup gæti ekki fengið tækið afhent.  Jafnfram var þeim tilmælum beint til tollyfirvalda um að afhenda Valskaupum ekki vöruna í samræmi  við ákvæði í reglugerð nr. 237/1996, um eftirlit með samræmi reglna um öryggi framleiðsluvara sem fluttar eru inn frá ríkjum utan Evrópska efnahagssvæðisins.

Ákvörðun 67/2011 má lesa í heild sinni hér.   Bréf til Tollstjóra má lesa hér.

TIL BAKA