IKEA innkallar LEOPARD barnastólinn
IKEA biður viðskiptavini sína sem eiga LEOPARD barnastól að hætta strax að nota stólinn og skila sætinu og grindinni til IKEA. Tekið er á móti stólnum í Skilað og skipt og verður hann að fullu endurgreiddur.
Smellulásar sem festa sætið við grindina eiga það á hættu að brotna sem getur valdið því að sætið dettur niður um grindina. Börn geta orðið fyrir meiðslum á höfði og öðrum líkamshlutum við það að detta og þeim getur stafað köfnunarhætta af lausum smellulásum.
IKEA hefur fengið ellefu tilkynningar vegna brotinna smellulása frá kaupendum í Evrópu. Þar á meðal er eitt tilvik þar sem sæti stólsins datt niður um grindina á meðan barn sat í því. Barnið marðist á fótleggjum. Í öðru tilviki fannst laus smellulás í munni barns en hann var fjarlægður áður en skaði hlaust af.
Ekki hafa borist fleiri tilkynningar um slys eða meiðsl.
IKEA biðst velvirðingar á öllum óþægindum sem kunna að hljótast af þessu.
Frekari upplýsingar má nálgast á www.IKEA.is eða í síma 520 2500.