Verðmerkingar í Kringlunni
Í byrjun júlí heimsóttu fulltrúar Neytendastofu 108 sérvöruverslanir Kringlunnar í þeim tilgangi að athuga hvort verðmerkingar í verslun og sýningargluggum væri í samræmi við lög og reglur. Reyndust 10 verslanir ekki vera með verðmerkingarnar í lagi. Í byrjun september var athugað hvort verslanirnar hefðu bætt úr verðmerkingunum. Aðeins ein verslun var ekki búin að laga verðmerkingarnar en það var Mýrin.
Verslunareigendur og starfsmenn þeirra verða að passa upp á að allar vörur séu ávallt verðmerktar hvort sem er inni í verslun eða í sýningarglugga. Vörur eiga að vera verðmerktar allsstaðar þar sem þær eru hafðar til sýnis.
Neytendastofa mun halda áfram verðmerkingaeftirliti sínu og verðkönnunum og gera athugun hjá fleiri verslunum. Stofnunin hvetur neytendur því til að halda áfram að senda henni ábendingar t.d í gegnum rafrænt ábendingakerfi stofnunarinnar á www.neytendastofa.is