Stórverslanir standast ekki kröfur um verðmerkingar
Dagana 26. maí – 9. júní 2010 fóru starfsmenn Neytendastofu í 30 stórar verslanir með sérvöru á höfuðborgarsvæðinu. Kannaðar voru verðmerkingar og hvort samræmi væri milli þeirra og kassaverðs.
Af þessum 30 verslunum var aðeins ein verslun, Hagkaup í Smáralind, sem var með allar verðmerkingar í lagi. Fjórar verslanir voru með athugasemdir við yfir 25% af þeim vörum sem skoðaðar voru, Toys r us á Korputorgi, Byko í Breidd, BT í Skeifunni og Elko í Skeifunni . Ljóst er að starfsmenn allra þessara verslana þurfa að gera átak í verðmerkingum, enda sjálfsagður réttur neytenda að vörur séu verðmerktar, skýrt og greinilega og að verðið sé rétt.
Í þessari könnun bar mest á að vörur væru óverðmerktar frekar en það væri ósamræmi á milli merkt verðs vöru og verðs á afgreiðslukassa. Frá síðustu könnun í september 2009 hefur því lagast mikið samræmið á milli verðmerkingar á vörunni og verðs á afgreiðslukassa. Þetta er þróun í rétta átt.
Neytendastofa hvetur fólk til að fylgjast með og skoða vel kassastrimilinn þegar greitt er. Ef um er að ræða misræmi í verðmerkingum, t.d. á milli verðs á hillubrún og verðs í afgreiðslukassa, er almenna reglan sú að verslanir eiga að selja vörur á því verði sem hún er verðmerkt, líka þótt um mistök sé að ræða. Þetta gildir þó ekki ef sjá má, eða það ætti að sjást, að um mistök er að ræða. Þá gildir þetta heldur ekki ef röng verðmerking er ekki sök fyrirtækisins heldur hafi t.d. annar viðskiptavinur breytt verðmerkingu eða fært vörur til. Byggist þetta á því að neytendur velja vöruna á grundvelli verðmerkingarinnar en ekki á grundvelli verðs í afgreiðslukassa enda hafa neytendur engin tök á því að sjá það verð fyrr en komið er að því að greiða vöruna.
Listi yfir þær verslanir sem farið var í:
Verslun | Heimilifang | Sveitafélag |
BT | Skeifunni 11 | Reykjavík |
Byko | Fiskislóð 15 | Reykjavík |
Byko | Breidd | Kópavogi |
Byko | Kauptúni 6 | Garðabæ |
Debenhams | Smáralind | Kópavogi |
Elko | Skeifunni 7 | Reykjavík |
Elko | Lindum | Kópavogi |
Europris | Fiskislóð 3 | Reykjavík |
Europris | Korputorgi | Reykjavík |
Europris | Dalvegi 10-14 | Kópavogi |
Europris | Tjarnarvöllum 11 | Hafnarfirði |
Hagkaup | Kringlunni | Reykjavík |
Hagkaup | Holtagörðum | Reykjavík |
Hagkaup | Skeifunni 15 | Reykjavík |
Hagkaup | Smáralind | Kópavogi |
Hagkaup | Litlatúni 3 | Garðabæ |
Húsasmiðjan | Skútuvogi 16 | Reykjavík |
Húsasmiðjan | Vínlandsleið | Reykjavík |
Húsasmiðjan | Helluhrauni 16 | Hafnarfirði |
Ikea | Kauptúni 4 | Garðabæ |
Ilva | Korputorgi | Reykjavík |
Max | Kauptúni 1 | Garðabæ |
Múrbúðin | Kletthálsi 7 | Reykjavík |
Pier | Korputorgi | Reykjavík |
Pier | Smáratorgi | Kópavogi |
Rúmfatalagerinn | Skeifunni 13 | Reykjavík |
Rúmfatalagerinn | Korputorgi | Reykjavík |
Rúmfatalagerinn | Smáratorgi | Kópavogi |
Toys r´us | Korputorgi | Reykjavík |
Toys r´us | Smáratorgi | Kópavogi |