Verðmerkingareftirlit á Akranesi og í Borgarnesi
Dagana 15 - 17. mars sl. fóru starfsmenn Neytendastofu í matvöruverslanir í Borgarnesi og Akranesi og könnuðu verðmerkingar og samræmi milli hillu- og kassaverðs.
Farið var í matvöruverslanirnar Samkaup/Strax, Samkaup/Úrval, Krónuna, Bónus í Borgarnesi og Akranesi og Hyrnuna. Í verslunum Bónus í Borgarnesi og Akranesi voru ekki gerðar athugasemdir við verðmerkingar en aðrar matvöruverslanir þurfa að bæta úr verðmerkingum.
Þrátt fyrir að gerðar hafi verið athugasemdir við verðmerkingar meirihluta matvöruverslana á svæði hefur orðið mikil framför frá könnun Neytendastofu sem framkvæmd var í september 2009. Í fyrri könnuninni voru merkingar hjá verslunum á Akranesi í lagi í 73% tilfella á móti 91% tilfella nú og hjá verslunum í Borgarnesi var í lagi í 80% tilfella en er nú 89%.
Ábendingar um skort á verðmerkingum og/eða rangar verðmerkingar er auðvelt að senda inn í gegnum rafræna Neytendastofu á vefslóðinni www.neytendastofa.is