Ummæli útvarpsstjóra RÚV ekki brot
365 miðlar ehf. kvörtuðu til Neytendastofu yfir ummælum útvarpsstjóra RÚV ohf. í fjölmiðlum, í tilefni þess að 365 miðlar keyptu sýningarrétt HM í handbolta árið 2011. Útvarpsstjóri tilkynnti að RÚV hefði gert 365 miðlum tilboð um að kaupa sýningarréttinn að mótinu og sagði að það væri hans skoðun að íslenska landsliðið í alþjóðlegri keppni ætti að vera í opinni dagskrá og að það væri vaxandi óánægja í þjóðfélaginu með að mótið myndi að mestu verða í læstri dagskrá. Þá hafi hann fullyrt að innan við 10% þjóðarinnar næðu útsendingu Stöðvar 2 sport og það væri verið að læsa íslenska handboltaliðið inni í kústaskáp. Töldu 365 miðlar að ummælin væru brot á lögum nr. 57/2005.
Neytendastofa komst að þeirri niðurstöðu að framangreind ummæli útvarpsstjóra áttu sér stað sem frétt og blaðaviðtal. Ummælin eru hans persónulega skoðun og hans persónulega mat. Eru ummælin því ekki sett fram í atvinnuskyni eða birt sem auglýsing og heyra því ekki undir ákvæði laga nr. 57/2005.
Ákvörðunina má lesa í heild sinni hér.