Fara yfir á efnisvæði

Söfn vel verðmerkt en kaffisölur þeirra ekki

25.08.2010

Nýverið kannaði Neytendastofa verðmerkingar hjá 21 safni á höfuðborgarsvæðinu  en jafnframt voru sjö veitingasölur skoðaðar á jafnmörgum söfnum. Kannað var hvort aðgangseyrir væri tilgreindur auk verðmerkinga á minjagripum og öðrum sambærilegum vörum.

Í ljós kom að aðeins eitt safn var ekki með upplýsingar um aðgangseyri til sýnis á safninu en það var Hönnunarsafn Íslands við Garðatorg. Í öllum tilfellum reyndust verðmerkingar á minjagripum og öðrum sambærilegum vörum í lagi.

Í veitingasölum Árbæjarsafns í Dillonshúsi og Gerðarsafns voru veitingar og drykkir meira og minna óverðmerktir og jafnframt voru vörur í kæli Kaffitárs í Þjóðminjasafninu og Súpubarsins í Listasafni Reykjavíkur óverðmerktar. Aftur á móti voru verðmerkingar í góðu lagi í veitingasölum Kjarvalsstaða, Listasafns Íslands og Víkurinnar – Sjóminjasafns Reykjavíkur.

Við viljum hvetja neytendur til að halda áfram að senda inn ábendingar, það er ómetanleg aðstoð við eftirlitsstarf okkar, nafnlausar ábendingar eða undir nafni með skráningu notenda í þjónustugátt stofnunarinnar, sjá nánari upplýsingar og leiðbeiningar á heimasíðu Neytendastofu.



 

TIL BAKA