Fara yfir á efnisvæði

Skoðun Neytendastofu á ástandi verðmerkinga á rúmum í húsgagnaverslunum.

23.07.2008

Neytendastofu bárust ábendingar frá neytendum þess efnis að verðmerkingum á rúmum í húsgagnaverslunum væri ábótavant. Gerði stofnunin því athugun á ástandi verðmerkinga í 19 húsgagnaverslunum á höfuðborgarsvæðinu sem selja rúm. Annars vegar var kannað ástand verðmerkinga á rúmum og hinsvegar verð á fylgihlutum.

Verðmerkingar voru almennt í samræmi við ákvæði laga og reglna og kemur í þeim tilfellum ekki til frekari aðgerða af hálfu Neytendastofu. Verðmerkingum var ábótavant í 6 af þeim 19 verslunum sem heimsóttar voru. Neytendastofa sendi skriflegar athugasemdir til þeirra verslana þar sem verðmerkingum var ábótavant og þeim gefinn frestur til að koma verðmerkingum í samt lag. Að þeim fresti loknum verður ástand verðmerkinga kannað á ný og gripið til aðgerða telji stofnunin þess þörf.

Neytendastofa hyggst halda verðmerkingaeftirliti sínu áfram og gera skoðun á ástandi verðmerkinga hjá fleiri verslunum. Neytendur geta sent Neytendastofu ábendingar um ástand verðmerkinga á rafrænni neytendastofu sem aðgengileg er af vefsíðu stofnunarinnar www.neytendastofa.is.

TIL BAKA