Fara yfir á efnisvæði

Flugeldar og lög um skaðsemisábyrgð - ábyrgð dreifingaraðila og framleiðenda vegna framleiðslugalla

30.12.2011

Fréttamynd

Um áramótin er áætlað að um 600 tonnum af flugeldum verði skotið á loft. Flugeldar eru í eðli sínu hættuleg vara og sérstaklega ef þeir virka ekki rétt eða vegna framleiðslugalla.  Neytendastofa vill benda á að framleiðendur og dreifingaraðilar bera  skaðabótaábyrgð vegna gallaðrar framleiðsluvöru s.s. flugelda samkvæmt ávæðum laga nr. 25/1991, um skaðsemisábyrgð. Samanlagt geta bætur vegna líkamstjóns, þar með talið dauðaslyss, vegna vöru sem haldin er framleiðslugalla numið allt að 11,5milljörðum íslenskra króna (70 milljónir evra).

Á næsta ári verður innleidd með lögum á Íslandi ný tilskipun Evrópusambandsins nr. 2007/23/EB, um flugelda þar sem gerðar eru auknar kröfur varðandi framleiðslu flugelda, CE-merkingu þeirra, efnainnihald og leiðbeiningar varðandi notkun. Hjá systurstofnun Neytendastofu í Danmörku var gerð úrtakskönnun á flugeldum en þar hafa framangreindar reglur verið lögfestar. Í ljós kom að 27 eintök af 56 flugeldum uppfylltu ekki kröfur. Niðurstöður þeirrar könnunar má sjá hér.
Neytendastofa hvetur neytendur til að sýna fulla aðgát við meðferð flugelda um áramótin og óskar landsmönnum farsældar á nýju ári.

TIL BAKA