Tilmæli frá OECD um aukna neytendafræðslu
Í fréttatilkynningu frá OCED kemur fram að nauðsynlegt er að stjórnvöld auki neytendafræðslu í skólum. Markmiðið er að efla gagnrýna hugsun hjá ungum neytendum og auka meðvitund þeirra um neyslu og markaðssetningu.
Tilmælin eru byggð á ítarlegri könnun sem gerða var af hálfu nefndar sem fjallar um neytendastefnumál hjá OECD. Þar var athugað hvaða áhrif skýr stefna um aukna fræðslu til neytenda og aðgerðir hafa hjá mismunandi ríkjum sem tóku þátt í þessari könnun, sem sjá má hér.
Í tilmælunum er mælst m.a. til þess að ríkisstjórnir tryggi að neytendafræðsla sé hluti af aðalnámskrám og skólar stundi kennslu á þessu sviði. Styðja verður við endurmenntun og fræðslu kennara þannig að þeir geti tekist á við þetta verkefni.
Nauðsynlegt er að efla til muna samstarf milli skólayfirvalda og þeirra sem sjá um neytendamál, nýta sérþekkingu og þannig að viðhlítandi fræðsla um réttindi og skyldur neytenda sé tryggð í grunn-og framhaldsskólum. Auk þess er mikilvægt að huga að endurmenntun þeirra sem eldri eru þannig að þeir fái fræðslu um réttindi neytenda eftir því sem viðskipti neytenda á markaði verða sífellt flóknari. Loks er bent á að auka verður verulega fræðslu sem tengist notkun á Netinu og viðskiptum sem tengd eru alls kyns tækninýjungum.
Neytendastofa hefur á undanförnum árum lagt áherslu á mál er varða neytendafræðslu. Auk þess starfar á hennar vegum neytendafræðsluráð skipað fulltrúum frá Félagi lífsleiknikennara, Neytendasamtökunum auk sérfræðinga Neytendastofu. Unnið verður áfram á þeirri braut sem hefur verið mörkuð en tilmæli OECD eru góðir vegvísir fyrir starfið framundan.
Tilmæli OECD í heild sinni má sjá hér.