Fara yfir á efnisvæði

Ákvörðun Neytendastofu staðfest

13.11.2013

Áfrýjunarnefnd neytendamála hefur staðfest þá ákvörðun að banna Gentle Giants að merkja miðasöluhús fyrirtækisins með orðunum „THE TICKET CENTER“.

Norðursigling kvartaði til Neytendastofu m.a. yfir merkingum á miðasöluhúsi Gentle Giants. Í ákvörðun Neytendastofu nr. 49/2012 var að mati stofnunarinnar merkingin „THE TICKET CENTER“ á miðasöluhúsi Gentle Giants talin gefa til kynna að þar væri um að ræða eina miðasöluhúsið á svæðinu. Í ákvörðuninni var Gentle Giants bannað að merkja og auglýsa miðasöluhúsið með þessari fullyrðingu.

Í úrskurði áfrýjunarnefndar kemur m.a. fram að Gentle Giants og Norðursigling séu í samkeppni um hvalaskoðunarferðir frá Húsavíkurhöfn. Merkingar á miðasöluhúsi Gentle Giants séu með þeim hætti að á framhlið hússins, ofan á þaki þess, standi stórum stöfum ,,WHALE WATCHING“ og fyrir neðan standi litlu minni stöfum ,,THE TICKET CENTER“. Vinstra megin á framhlið hússins sé auglýsingaspjald með vörumerki Gentle Giants. Á suðurhlið hússins stendur stórum stöfum ,,TICKET CENTER“, líkt og á framhlið hússins, en þar sé hins vegar ekkert vörumerki frá Gentle Giants líkt og á framhlið þess. Við mat á því hvort framangreind framsetning sé villandi verði að líta til þess hvaða skilning dæmigerður neytandi megi leggja í hana. Orðin ,,THE TICKET CENTER“ á miðasöluhúsi fyrirtækisins, og framsetning þeirra í samhengi við orðin ,,WHALE WATCHING“ á framhlið hússins, séu með þeim hætti að hinn dæmigerði neytandi megi skilja umrædda framsetningu svo að í húsinu sé að finna miðasölu fyrir allar hvalaskoðunarferðir á svæðinu. Í úrskurði áfrýjunarnefndar var ákvörðun Neytendastofu staðfest.

Sjá úrskurð áfrýjunarnefndar neytendamála nr. 24/2012

TIL BAKA