Lénin bill.is og ibill.is
Bílasalan bíll.is kvartaði til Neytendastofu yfir notkun keppinautar á lénunum ibill.is og ibíll.is. Kvörtunin snéri að því að bíll.is eigi skráð lénið bill.is auk þess sem bílasalan hafi frá stofnun, árið 1998, verið rekin undir heitinu bíll.is. Notkun keppinautar á lénunum ibill.is og ibíll.is valdi ruglingi og því var farið fram á að Neytendastofa bannaði notkun þeirra.
Í ákvörðuninni er um það fjallað að til þess að fyrirtæki geti notið einkaréttar á auðkenni sínu, hvort sem um er að ræða firmaheiti, lén eða vörumerki, verði það að vera sérkennandi. Ef auðkennið er almennt eða lýsandi fyrir starfsemina verður eigandi þess að sætta sig við að keppinautar noti auðkenni sem séu lík því.
Í þessu máli kom fram að Neytendastofa teldi orðið bíll almennt, lýsandi og skorta nauðsynlegt sérkenni til þess að það gæti notið verndar gegn því að keppinautur noti sama eða líkt orð. Bílasalan bíll.is gæti ekki notið einkaréttar á því. Með vísan til þess var notkun á lénunum ibill.is og ibíll.is ekki bönnuð.
Ákvörðunina má lesa í heild sinni hér.