Verðmerkingar kvikmyndahúsa
Dagana 15. -18. júní sl. fór fulltrúi Neytendastofu í heimsókn í kvikmyndahús höfuðborgarsvæðisins og athugaði þar verðmerkingar á miðum og neysluvörum. Farið var í sjö kvikmyndahús.
Í kjölfarið sendi Neytendastofa Laugarásbíói og Sambíóunum Kringlunni bréf vegna ófullnægjandi verðmerkinga. Það fyrr nefnda hafði ekki sjáanlegar verðmerkingar á bíómiðum en í Kringlubíó vantaði verðmerkingar á nammibarinn og aðrar neysluvörur. Neytendastofa fór fram á það að kvikmyndahúsin bættu úr þessu sem fyrst.
11. og 12. júlí fór Neytendastofa afturí þessi tvö kvikmyndahús og var þá búið að bæta verðmerkingar í þeim báðum.
Neytendastofa hefur áður kannað verðmerkingar í kvikmyndahúsum og hafa athugasemdir aldrei verið færri en nú sem sýnir að nauðsynlegt er að viðhalda reglubundnu eftirliti með verðmerkingum.
Við hvetjum neytendur til að vera ávallt vel á verði og koma ábendingum til stofnunarinnar með
rafrænum hætti í gegnum rafræna Neytendastofu á slóðinni www.neytendastofa.is