Fara yfir á efnisvæði

Endurskinsmerki eiga að vera CE merkt

02.01.2012

Fréttamynd

Neytendastofa hefur á árinu kannað endurskinsmerki af ýmsum tegundum. Neytendur geta ekki lagt mat á þessar vörur með því einu að horfa á þær. Þess vegna hvílir mikil skylda á framleiðendum, innflytjendum, dreifingaraðilum og söluaðilum merkjanna að sjá til þess að merkin veiti raunverulegt endurskin og séu örugg. Endurskinsmerki t.d. vesti, smellubönd, límborðar eða hárskraut sem uppfylla ekki kröfur um endurskin veita  falskt öryggi og getur þar af leiðandi skapast  lífshætta þar sem einstaklingurinn telur sig vera með endurskinsmerki sem ökumenn ættu að sjá.

Endurskinsmerki sem standast kröfur verða að vera m.a. með CE-merki og merkt með númerinu EN 13356 eða ÍST EN 13356. Slík merking táknar að framleiðandinn hafi látið prófa vöruna og staðfest er að hún sé í lagi. Það verða einnig að fylgja merkjunum leiðbeiningar á íslensku auk annarra nauðsynlegra upplýsinga, s.s.  um notkun þ.m.t hvort merkin þoli þvott,  hvernig á að festa endurskinsmerki þannig að það spegli ljós úr öllum áttum, o.fl.

Neytendastofa bendir á að ýmsar vörur á markaði líkjast endurskinsmerkjum en í raun eru það ekki. Rík ábyrgð hvílir á seljendum og dreifingaraðilum upplýsa og merkja greinilega að  slík vara sé ekki öryggisvara og að hún sé ekki til varnar á nokkurn hátt.

Neytendastofa hefur skoðað yfir 40 merki sem seld hafa verið sem endurskinsmerki auk þess sem Vegagerðin hefur kannað endurskin merkjanna. Stofnunin mun fylgjast nánar með markaðnum og grípa til aðgerða ef á markaðnum reynast vera endurskinsmerki sem uppfylla ekki kröfur.

TIL BAKA