Fara yfir á efnisvæði

Allianz gert að greiða eina milljón króna í stjórnvaldssekt.

17.12.2009

Nýi Kaupþing banki, nú Arion banki, kvartaði til Neytendastofu yfir samanburði Allianz á nokkrum lífeyrissparnaðarleiðum. Nýi Kaupþing taldi samanburðinn villandi og þá ávöxtun sem borin var saman ekki samanburðarhæfa.

Í auglýsingunni var borin saman raunávöxtun einstaklinga með viðbótarlífeyrissparnað hjá Allianz, Nýja Kaupþingi og nokkrum öðrum sjóðum. Í auglýsingunni var búið að umreikna nafnávöxtun sparnaðarins yfir í raunávöxtun. Við þann umreikning ætti m.a. að taka tillit til verðbólgu og gengisbreytinga, þegar sparnaður er í öðrum gjaldmiðli en íslenskum krónum. Í ávöxtunartölum fyrir sparnað hjá Allianz hafði ekki verið tekið tillit til gengisbreytinga, þar sem hjá Allianz er sparað í evrum. Þá hafði verið tekið tillit til verðbólgu í Þýskalandi, þar sem höfuðstöðvar Allianz eru, en ekki verðbólgu á Íslandi. Í auglýsingunni var því raunávöxtun einstaklings með viðbótarlífeyrissparnað tekinn út á Íslandi borin saman við raunávöxtun einstaklings með viðbótarlífeyrissparnað tekinn út í Þýskalandi. Neytendastofa taldi samanburðinn ekki í samræmi við lög og féllst því á kröfur Nýja Kaupþings.

Um var að ræða annað brot Allianz á lögum um eftirlit með viðskiptaháttum og markaðssetningu við samanburð á ávöxtun viðbótarlífeyrissparnaðar og því taldi Neytendastofa ástæðu til að leggja stjórnvaldssekt á Allianz. Með ákvörðuninni er samanburðarauglýsing Allianz bönnuð og Allianz gert að greiða eina milljón króna í stjórnvaldssekt.

Ákvörðunina má lesa í heild sinni hér

TIL BAKA