Fara yfir á efnisvæði

Möguleg eldhætta af uppþvottavélum

01.04.2009

Neytendastofa vekur athygli á aðvörun framleiðanda um mögulega eldhættu af ákveðnum gerðum uppþvottavéla frá Electrolux, AEG, Zanussi og Husqvarna.

Um er að ræða ákveðnar gerðir uppþvottavéla frá Electrolux, AEG, Zanussi og Husqvarna sem grunur leikur á að geti verið með galla í rafkerfi sem orsakað geti bruna. Vitað er til að kviknað hafi í nokkrum uppþvottavélum af umræddum gerðum, m.a. í Noregi. Umræddar uppþvottavélar voru framleiddar frá júní 2006 til og með júní 2007. Sjá nánar frétt á mbl.is  og upplýsingar á vef Electrolux í Noregi .

Skv. upplýsingum frá Bræðrunum Ormsson ehf hefur fyrirtækið ekki selt AEG uppþvottavélar af umræddum gerðum hér á landi og skv. upplýsingum frá Húsasmiðjunni munu ekki vera í umferð hér á landi uppþvottavélar frá fyrirtækinu af umræddum gerðum frá Electrolux. Sjá nánar frétt á mbl.is. Engu að síður er mögulegt að uppþvottavélar með umræddum galla hafi borist hingað til lands eftir öðrum leiðum.

Neytendastofa hvetur eigendur uppþvottavéla sem mögulega gætu verið með umræddum galla að hafa þegar í stað samband við söluaðila og afla frekari upplýsinga. Verði staðfest að uppþvottavélarnar séu af umræddum gerðum ætti að hætta notkun þeirra þegar í stað.

TIL BAKA