Fara yfir á efnisvæði

Athugun Neytendastofu á sölu raftækja á Netinu

09.09.2009

Neytendastofa tekur þátt í samvinnu stjórnvalda á Evrópska efnahagssvæðinu um neytendavernd, sbr. ákvæði laga nr. 56/2007. Einn þátturinn í samstarfinu eru samræmdar aðgerðir á ýmsum afmörkuðum sviðum viðskiptalífsins, á ensku nefnt „sweep“. Stjórnvöld í þeim ríkjum sem taka þátt í aðgerðunum kanna samtímis og með sama hætti í öllum ríkjunum hvort réttindi neytenda séu virt. Í kjölfarið kanna stjórnvöld nánar þau fyrirtæki sem mögulega brjóta gegn lögum og reglum og grípa til aðgerða ef um brot er að ræða.

Í maí s.l. var gerð athugun á vefsíðum sem bjóða til sölu raftæki ætluð neytendum, þ.e. stafrænar myndavélar, farsíma, tónlistarspilara, DVD spilara, tölvubúnað og leikjatölvur.

26 aðildarríki ESB auk Noregs og Íslands tóku þátt í athuguninni sem tók til 369 vefsíðna.

 Kannað var hvort vefsíður væru í samræmi við neytendalög að því er varðar upplýsingar um:
- seljanda,
- vöruna, þ.e. heildarverð og lýsing á vöru,
- réttindi neytenda.

Niðurstöður aðgerðarinnar eru kynntar í dag af framkvæmdastjóra neytendamála hjá Evrópusambandinu. Í ljós kom að hjá 55% af þeim 369 vefsíðum voru upplýsingar ófullnægjandi. Algengustu misbrestirnir voru villandi upplýsingar um réttindi neytenda, villandi upplýsingar um heildarverð og ófullnægjandi eða engar upplýsingar um seljanda.

Athugun Neytendastofu tók til tíu íslenskra vefsíðna þar sem raftæki eru á boðstólum. Kannað var hvort vefsíðurnar væru í samræmi við ákvæði laga um óréttmæta viðskiptahætti nr. 57/2005, laga um rafræn viðskipti og aðra rafræna þjónustu nr. 30/2002 og laga um húsgöngu- og fjarsölusamninga nr. 46/2000, en öll framangreind lög byggja á sameiginlegum reglum Evrópska efnahagssvæðisins.

Tvær af þeim vefsíðum sem Neytendastofa kannaði uppfylltu skilyrði framangreindra laga varðandi sölu á raftækjum á Netinu en það voru vefsíður Elko, www.elko.is og Nýherja, www.netverslun.is.

Aðrar vefsíður sem Neytendastofa kannaði þarfnast nánari athugunar, en það eru bodeind.is, computer.is, ejs.is, fartolvur.is, siminn.is, start.is, tolvuvirkni.is og vodafone.is.

Neytendastofa hefur haft samband við framangreinda aðila og óskað eftir nánari upplýsingum og skýringum og að lagfæringar verði gerðar á vefsíðum þar sem þess er þörf.

Fréttatilkynningu Evrópusambandsins í heild má lesa hér.

TIL BAKA