Fara yfir á efnisvæði

Bílasamningar Lýsingar sbr. dóm Hæstaréttar nr. 672/2012

30.07.2013

Neytendastofa vill hvetja neytendur sem eru með tiltekna gerð bílasamninga við Lýsingu hf. að gera kröfu um endurútreikninga.

Neytendastofa hefur með ákvörðun sinni nr. 34/2010 úrskurðað að Lýsing hafi brotið gegn lögum um neytendalán með því annars vegar að tilgreina ekki í samningi að íslenskur hluti höfuðstóls væri verðtryggður og hins vegar með því að tilgreina ekki að vextir af þeim hluta samningsins væru breytilegir og við hvaða aðstæður og með hvaða hætti þeir gætu breyst. Umræddur samningur var blandaður, 50% í erlendri mynt og 50% í íslenskum krónum, og snéru þessi atriði bæði að íslenskum hluta samningsins. Í hægri haus samningsins kemur fram að um sé að ræða samning í erlendri mynt en ekki er tekið fram að íslenskur hluti hans sé verðtryggður. Í 4. gr. samningsins kemur fram að 50% hans sé í íslenskum krónum en ekki kemur fram að sá hluti sé verðtryggður eða hver grunnvísitala samningsins er.

Hæstiréttur Íslands hefur nú, með dómi í máli nr. 672/2012, komist að sömu niðurstöðu um sambærilegan samning. Samkvæmt dómnum skal Lýsing endurgreiða viðkomandi neytanda verðbætur sem greiddar höfðu verið af samningnum og breytilega vexti umfram það sem tilgreint var í samningnum. Í tilkynningu frá Lýsingu í kjölfar dómsins er skorað á þá sem telji sig hafa samið um lægri kjör en markaðskjör á þeim hluta lánsins sem er í íslenskum krónum að gera skriflega athugasemd fyrir 1. september nk. og óska eftir leiðréttingu á greiðslum.

Neytendastofa hefur skoðað framangreint með hliðsjón af lögum nr. 121/1994 um neytendalán og haft samband við Fjármálaeftirlitið og Umboðsmann skuldara. Stofnanirnar þrjár vekja athygli neytenda sem kunna að hafa gert slíkan samning við Lýsingu á mögulegum rétti til að leggja fram kröfu til fyrirtækisins um leiðréttingu á samningnum í samræmi við niðurstöður Hæstaréttar Íslands. Samningsvexti er að finna á greiðsluáætlun sem fylgir samningnum. Þar eru tilgreindir meðalvextir og sundurgreining á vöxtum hverrar myntar, þ.m.t. íslenkum krónum.

Neytendastofa er eftirlitsstofnun sem hefur m.a. eftirlit með því að lánasamningar uppfylli kröfur laga um neytendalán. Neytendastofa hefur ekki lagaheimildir til þess að endurreikna lán fyrir neytendur eða gera fyrir þá kröfur um endurgreiðslu.

Vilji Lýsing ekki verða við kröfum neytenda má leita með ágreininginn fyrir úrskurðanefnd í viðskiptum við fjármálafyrirtæki, sem hýst er hjá Fjármálaeftirlitinu, eða fyrir dómstóla.

Til fróðleiks má lesa ákvörðun Neytendastofu hér og dóm Hæstaréttar má lesa hér.

Neytendur geta fengið nánari upplýsingar hjá Neytendastofu með pósti á netfangið postur@neytendastofa.is, innskráningu á rafræna Neytendastofu eða í síma milli kl. 9 og 12 alla virka daga.

TIL BAKA