Löggilding gjaldmæla í leigubifreiðum
Neytendastofa hefur sent innanríkisráðherra til staðfestingar drög að reglugerð um löggildingu á gjaldmælum leigubifreiða.
Samkvæmt lögum um leigubifreiðaakstur og í lögum um mælingar og mæligrunna kemur fram að gjaldmælar leigubifreiða eigi að vera löggiltir. Með löggildingu mælitækis er reglubundið verið að staðfesta að mælitækið sé í lagi og mæli rétt. Í nágrannaríkjum okkar eru gjaldmælar leigubifreiða löggiltir reglulega enda mikilvægir hagsmunir fyrir almenning og þjóðfélagið að það sé gert.
Neytendastofa hefur eftirlit með þeim mælitækjum sem Alþingi ákveður að skuli löggilt. Eftirtalin mælitæki falla undir þetta eftirlit: vogir, eldsneytisdælur raforkumælar og hitaveitumælar en öll framangreind mælitæki eru notuð til sölumælinga við sölu til neytenda. Öll löggilt mælitæki eru merkt með merki sem er tákn um að þau séu löggilt.
Drög að reglugerð um eftirlit og löggildingu gjaldmæla í leigubifreiðum má sjá hér.