Sölubann á gúmmíboltum með teygjuþræði úr gúmmí.
02.05.2003
Markaðsgæsludeild Löggildingarstofu hefur bannað frekari sölu hér á landi á gúmmíboltum með áföstum teygjanlegum gúmmíþræði með hring á endanum, svokallaðir Yoyo boltar. Sölubannið er sett með hliðsjón af ábendingu um hættueiginleika vörunnar og með hliðsjón af slysum sem orðið hafa á börnum bæði í Englandi og í Frakklandi.
Hættueiginleikar leikfangsins felast m.a. í því að börn geta sveiflað teygjanlega gúmmíbandinu, sem boltinn er áfastur í, utan um hálsinn á sér með tilheyrandi hengingarhættu. Fleiri en ein útfærsla er til af leikfanginu s.s. boltar sem innihalda vökva, boltar sem innihalda blikkandi ljós eða boltar sem einungis eru úr gúmmí.
Þrátt fyrir að ekki sé vitað um slys af völdum boltanna hér á landi telur markaðsgæsludeild Löggildingarstofu áríðandi að foreldrar og forráðamenn barna séu meðvitaðir um þá hættu sem getur stafað af þessum leikföngum, útskýri hættuna fyrir börnum sínum og taki ákvörðun um hvort börnin megi hafa þetta leikfang áfram undir höndum.
Markaðsgæsludeild Löggildingarstofu hefur eftirlit með öryggi leikfanga hér á landi og er sölubann þetta tekið með hliðsjón af ákvæðum reglugerðar um öryggi leikfanga og hættulegra eftirlíkinga nr. 408/1994 sem og laga nr. 134/1995, um öryggi vöru og opinbera markaðsgæslu.
Mismunandi útfærslur eru til af þessu leikfangi en að grunni til er leikfangið eins og sýnt er á meðfylgjandi mynd.
Nánari upplýsingar veitir:
Markaðsgæsludeild Löggildingarstofu, Fjóla Guðjónsdóttir
í síma 510 1100